Úrslit kosninganna í Eyjum kærð

Elliði Vignisson, fráfarandi bæjarstjóri í Vestmannaeyjum. Sjálfstæðisflokkurinn hefur kært úrslit …
Elliði Vignisson, fráfarandi bæjarstjóri í Vestmannaeyjum. Sjálfstæðisflokkurinn hefur kært úrslit kosninganna. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Sjálfstæðisflokkurinn í Vestmannaeyjum hefur kært úrslit sveitarstjórnarkosninganna í Vestmannaeyjum 2018 til sýslumanns í Vestmannaeyjum. Kæran tekur annars vegar til fjögurra utankjörfundaratkvæða sem yfirkjörstjórn úrskurðaði ógild og hins vegar til myndbirtingar á samfélagsmiðlum af atkvæði einstaklings.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Sjálfstæðisflokknum í Vestmannaeyjum, þar sem enn fremur kemur fram að atkvæðin fimm kunni að geta breytt úrslitum kosninganna. Einnig er gerð athugasemd við það í kærunni að útgefnir kjörseðlar stemmi ekki við greidd atkvæði.

Elliði Vignisson, fráfarandi bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, greindi frá því að kjörstjórn hefði neitað að taka á móti fjórum utankjörfundaratkvæðum sem bárust innan við mínútu of seint, en illa gekk að koma atkvæðum til Eyja laugardaginn 26. maí vegna veðurs.

Trausti Hjaltason, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Eyjum, segir það ljóst að löngu hefði verið búið að kjósa þrátt fyrir að illa hefði gengið að koma atkvæðunum á kjörstað. 

„Sannarlega er reynt eftir öllum mögulegum leiðum að koma atkvæðunum á kjörstað. Vilji kjósandans nær ekki fram að ganga vegna ádeilu um nokkrar sekúndur. Það er því beinlínis skylda okkar að láta á það reyna hvort ekki sé brotið á kjósendum í þessu tilfelli. Einnig sé alveg ljóst að sá hluti [sic] laganna um kosningar til sveitarstjórnar sem fjallar um utankjörfundaratkvæði þurfi að taka til heildstæðrar endurskoðunar. Það sé afar sérstakt að ferðast þurfi með bréfsnepla landshlutanna á milli þegar það séu sýslumenn og talningarmenn víða sem eiga að geta klárað talninguna hjá sér og komið þeim upplýsingum á réttan stað,“ er haft eftir honum í tilkynningu.

Hreinn meirihluti Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum féll í kosningunum og var í gær tilkynnt um að Íris Róbertsdóttir yrði nýr bæjarstjóri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert