Spennandi er að fylgjast með fjölmiðlum nú um daga, þar sem ofboðslega miklar og hraðar breytingar eru að verða á rekstrarumhverfi þeirra. Mikilvægi fréttamiðla hefur vaxið og hlutverk þeirra í samfélaginu verður seint ofmetið. Þetta segir Valgerður Jóhannsdóttir, aðjúnkt við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands og doktorsnemi við Hróarskelduháskóla.
Hún, ásamt Jóni Gunnari Ólafssyni doktorsnema við Goldsmith-háskóla í London, birti grein í fræðitímaritinu Stjórnmál og stjórnsýsla á fimmtudag sem ber heitið Íslenskir fréttamiðlar á tímum umróts og breytinga.
„Þessu hlutverki, að afla réttra upplýsinga, sannreyna upplýsingar, veita stjórnvöldum eða öðrum valdhöfum aðhald, spegla samfélagið og okkur, þessu verður ekki sinnt af einhverjum bloggurum eða áhrifavöldum eða fólki sem er að gera þetta með annarri hendinni. Þetta er bara hlutverk sem blaðamannastéttin og ritstýrðir fjölmiðlar einir geta sinnt og það þarf að búa til þannig umhverfi að þeir fái þrifist, því að annað kemur okkur um koll,“ segir Valgerður í samtali við blaðamann mbl.is.
Í rannsókninni báru Valgerður og Jón Gunnar m.a. saman rekstrarumhverfi íslenskra fréttamiðla við það umhverfi sem miðlum á Norðurlöndunum er skapað. Í ljós kom að markaðurinn hér er talsvert frábrugðinn því sem einkennir fjölmiðlamarkaðinn á Norðurlöndum.
„Það eru svo sem engin stórkostleg ný sannindi í því, við erum aðallega frábrugðin í því að hér er enginn stuðningur við einkarekna fjölmiðla, á meðan að það hefur verið almenna reglan hjá norrænum frændum vorum,“ segir Valgerður, en á Norðurlöndum segir hún að almennt sé heldur verið að bæta í stuðning ríkisvaldsins við einkarekna fjölmiðla, eftir að miklar tæknibreytingar undanfarinna ára hafi bæði hrist og veikt tekjumódel fréttamiðla.
Opinber stuðningur við einkarekna fjölmiðla hefur ekki verið fyrir hendi hérlendis, en slíkur stuðningur er lagður til í skýrslu nefndar menntamálaráðuneytisins um bætt rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla, sem kom út í janúar síðastliðnum.
„Það virðist ekki vera neitt umdeilt, sama hvar í hinu pólitíska litrófi menn standa að fréttamiðlar séu mikilvægt fyrirbrigði,“ segir Valgerður, sem telur mikilvægt að tillögur nefndarinnar komi til framkvæmda.
Valgerður segir að hún og Jón Gunnar hafi í upphafi rannsóknarvinnunar verið með þá tilgátu að efnahagshrunið 2008 hefði haft áhrif á íslenskan fjölmiðlamarkað umfram erlenda markaði. Svo segir Valgerður ekki vera í raun, sé horft til áranna þar sem „stafræna byltingin“ sem vegur nú að tekjumódeli fjölmiðla hófst af fullum krafti, en ekki bara fyrstu áranna eftir hrun.
Fækkun blaðamanna á Norðurlöndum og víðar hefur ekki verið mikið minni en hérlendis og samdráttur auglýsingatekna ekki verið meiri til lengri tíma litið, þrátt fyrir að breytingarnar hafi ef til vill verið „brattari“ hér strax í kjölfar efnahagshrunsins, t.d. vegna smæðar markaðarins og ýktari áhrifa efnahagshrunsins hér en víða annarsstaðar.
Því hafi íslenskir fjölmiðlar í raun verið búnir að „skera inn á beini“ með því að segja upp fjölmörgum blaðamönnum, þegar stafræna byltingin fór að ógna tekjustofnun fjölmiðla á Norðurlöndum og víðar. Svipaðar breytingar hafa átt sér stað þar, en bara síðar.
„Þetta eru ekkert séríslensk fyrirbæri; uppsagnir á blaðamönnum, samdráttur á ritstjórnum eða aukin markaðsvæðing, sem að rannsóknir sýna að lýsa sér í því að það er verið að auka áherslu á efni sem menn telja að sé söluvænt, en er kannski ekki í einhverjum skilningi efnið sem borgarar í lýðræðissamfélagi þurfa á að halda til að taka upplýstar ákvarðanir,“ segir Valgerður.
Að sögn Valgerðar eru tvö einkenni á íslenskum fjölmiðlamarkaði sem aðgreina hann að nokkru leyti frá mörkuðunum á Norðurlöndunum og líkjast ef til vill meira því sem er að gerast í ríkjum Suður-Evrópu. Í fyrsta lagi er það samkrull pólitískra og viðskiptalegra hagsmuna og fjölmiðla og annars vegar það að eftirlit opinberra aðila með fjölmiðlamarkaðnum sé veikt.
„Á Norðurlöndunum hinum eru fjölmiðlanefndir og –stofnanir með miklu virkara eftirlit og það er miklu nánar fylgst með og skipulegar safnað upplýsingum um stöðu fjölmiðla,“ segir Valgerður og tekur sem dæmi að það sé greint hvernig fólk og hvort fólk nýtir fréttamiðla og hvernig fréttamiðlar standa fjárhagslega og ýmislegt annað.
„Hér hefur mjög margt vantað upp á þetta. Í þessu atriði erum við líka frábrugðin Norðurlöndunum.“
Víðast hvar hefur hlutur prentmiðla og útvarpsstöðva á auglýsingamarkaði farið hratt minnkandi á undanförnum árum, en víða hafa auglýsingatekjur þeirra færst að mun meira leyti yfir til netmiðla og samfélagsmiðlarisa á borð við Facebook og Google en raunin er hér.
„Það hefur verið eitt af sérkennunum hjá okkur, hvað prentmiðlarnir hafa verið sterkir á þessum markaði og netið lítið og að einhverju leyti eru skýringarnar þær að þetta er svo lítill markaður og tungumálið er þannig að risum eins og Google finnst það kannski ekki alveg svara kostnaði að vera mikið að herja hér, en ég er ekkert viss um að það sé mikil vörn í því til lengdar. Ég óttast að það eigi eftir að fara stærri hlutur á samfélagsmiðlana, Facebook og Google,“ segir Valgerður og bendir á að þessi fyrirtæki séu víða að hirða „stjarnfræðilegan“ part af því fé sem fyrirtæki verja í auglýsingar.
„Í Danmörku er þetta komið yfir helming held ég. Ég hef enga töfralausn á því, en ég held að það þurfi að fara einhverjar leiðir til að taka á þessu því þessi fyrirtæki eru auðvitað ekki að búa til efnið, en svo eru það fjölmiðlarnir sem líða fyrir þetta,“ segir Valgerður.
Fram kemur í grein Valgerðar og Jóns Gunnars að Ísland sé ásamt Lúxemborg eitt af tveimur ríkjum Evrópu þar sem fríblöð hafi meiri lestur en áskriftarblöð. Sterk staða fríblaða hérlendis er þannig nokkuð einstök og Valgerður segir það mögulega vera vegna þessarar styrku stöðu sem prentmiðlar haldi enn í stóran hluta auglýsingakökunnar.
Víðast eru fríblöð svokölluð götublöð (e. tabloids), en því er ekki að skipta hér á landi, þar sem Fréttablaðið hefur frá upphafi verið „fullburða fréttablað“, að sögn Valgerðar.
„Þó að auglýsingahlutfallið sé mjög hátt í því og mun hærra í því en í Morgunblaðinu þá hefur það ekki verið eins og er algengt með fríblöð erlendis að höfða meira til svona „down-market“ afþreyingar. Svo er Fréttablaðinu dreift heim og það er örugglega stór skýring,“ segir Valgerður.
Í niðurlagi greinar sinnar minnast þau Valgerður og Jón Gunnar á að mikilvægt sé að halda áfram að rannsaka fjölmiðlaumhverfið á Íslandi, en margar gloppur eru í vitneskju fræðasamfélagsins um íslenska fjölmiðlamarkaðinn, sem torveldar framkvæmd samanburðarrannsókna.