Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar, segir málefnavinnu, í meirihlutaviðræðum Viðreisnar, Samfylkingar, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Pírata, hafa gengið „mjög vel.“ Oddvitarnir funduðu síðast á föstudag og tóku sér frí um helgina.
Hún vildi ekki greina frá því hvaða málefni hefðu verið rædd sérstaklega þar sem viðræðurnar væru trúnaðarmál en að greint yrði frá niðurstöðu þegar hún lægi fyrir.
„Ég get ekkert sagt til um það, við fórum af stað í formlegar viðræður af miklum heilindum öllsömul eftir þreifingarnar sem tóku tvo daga í síðustu viku og við förum af stað með það markmið að ná saman en auðvitað er það bara eins og það er. Við höfum fulla trú á því og það hefur gengið mjög vel.“ svaraði Þórdís aðspurð hvort hún væri bjartsýn á að flokkarnir myndu ná saman að lokum.
Hún sagði ótímabært að ræða það hver væri líklegasti aðilinn til að hreppa borgarstjórastólinn enda væru þau „ekkert byrjuð að ræða það“. Fyrst og síðast snerist vinnan um málefnin og það þurfi að lenda þeim áður en annað yrði ákveðið.
Fyrir helgi var greint frá því að oddvitar flokkanna væru jákvæð eftir fundinn á föstudaginn og Líf Magneudóttir, oddviti Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, sagði fundinn hafa gengið „vonum framar.“
Næsti fundur verður haldinn í fyrramálið klukkan níu í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti.