Býst við framhaldi á þingstörfum

Frá Alþingi.
Frá Alþingi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, segir það liggja í loftinu að framhald verði á þingstörfum um einhverja daga.

„Stóru málin sem blasa við þessa næstu daga eru veiðigjaldamálið, persónuverndarfrumvarpið og seinni umræða um fjármálaáætlun, sem mun taka einhverja daga að ljúka,“ segir Birgir en þinglok voru áætluð á fimmtudaginn. 

Gert er ráð fyrir að tillaga meirihluta atvinnuveganefndar um breytingu á veiðigjöldum verði tekin fyrir á Alþingi á morgun. Þetta kom fram á fundi þingflokksformanna með forseta Alþingis í morgun.

Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, ásamt Loga Einarssyni, formanni Samfylkingarinnar.
Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, ásamt Loga Einarssyni, formanni Samfylkingarinnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fyrsta umræða um veiðigjöld fer væntanlega fram á Alþingi á morgun og eftir það fer málið í formlega vinnslu í atvinnuveganefnd.

Aðspurður hvort það náist ekki að klára veiðigjaldamálið áður en þingi lýkur segir Birgir að stefnt sé að því. „Ef ekkert verður gert í þeim renna núverandi veiðigjaldaákvæði út í sumar. Ég held að allir hljóti að átta sig á því að það verður eitthvað gert, þótt það geti verið skiptar skoðanir um útfærslu,“ segir hann og bætir við að stjórnarflokkarnir á Alþingi séu samstíga í málinu.

Hann býst þó við áframhaldandi gagnrýni frá stjórnarandstöðunni. „Það verður þá bara umræða sem verður tekin bæði í þingsal og í atvinnuveganefnd á næstu dögum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka