Kæra kosningu á Suðurnesjum

Píratar hafa lagt inn kæru vegna framkvæmdar kosningar í Reykjanesbæ.
Píratar hafa lagt inn kæru vegna framkvæmdar kosningar í Reykjanesbæ. Mynd/mbl.is

Sýslu­mann­in­um á suður­nesj­um hef­ur borist kæra frá Pír­öt­um vegna fram­kvæmd­ar sveitarstjórnarkosningar í Reykjanesbæ. Píratar gera athugasemd við að atkvæði hafi verið talin fyrir luktum dyrum og áður en kjörfundi lauk.

Í kærunni er vísað til athugasemdar sem umboðsmaður Pírata, Albert Svan Sigurðsson, gerði og var bókuð í gerðarbók kjörstjórnar. Í henni segir að atkvæði hafi verið flokkuð í lokuðum sal og sett í 50 stykkja búnt. Búntunum hafi verið raðað á borð og að lögð hafi verið saman talning á fjölda flokkaðra búnta.

Píratar telja þetta brot á lögum um kosningar til sveitastjórna þar sem kveðið er á um að talning atkvæða skuli fara fram fyrir opnum dyrum svo að kjósendum gefist kostur á að fylgjast með.

Lögin gera ráð fyrir því að flokkun og undirbúningur talningar megi fara fram fyrir lokuðum dyrum en ekki talning.

„Þannig er ljóst að hvorki var heimilt að telja atkvæði eins og gert var á kjörstað í Reykjanesbæ fyrir luktum dyrum né áður en kjörfundi lýkur,“ segir í kærunni sem var lögð inn á fimmtudaginn.

Sýslumaðurinn á Suðurnesjum hefur skipað kærunefnd vegna málsins eins og gert er ráð fyrir í lögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert