Búast má við að það skýrist hvenær tillaga meirihluta atvinnuveganefndar um breytingu á veiðigjöldum verður tekin á dagskrá Alþingis eftir fund þingflokksformanna með forseta Alþingis.
Þetta segir Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri grænna.
Fundurinn hefst klukkan 11.
Lilja Rafney Magnúsdóttir formaður atvinnuveganefndar Alþingis sagðist í gær ekki eiga von á öðru en að breytingar á veiðigjöldum verði á dagskrá þingsins á morgun. Hún sagði þingmenn ríkisstjórnarflokkanna vera einhuga að baki frumvarpinu.
Birgir Ármannsson, formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, taldi einnig að frumvarpið yrði tekið á dagskrá Alþingis á morgun en hann ræddi við Morgunblaðið fyrir helgi.