Gunnlaugur Snær Ólafsson
Vonir eru um að samningar um þinglok liggi fyrir um kvöldmatarleiti, segir Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, í samtali við mbl.is. Hún segir mikinn samstarfsanda ríkja milli stjórnarandstöðuflokkanna og segir það ánægjulegt hversu samstíga þeir eru.
Orð Ingu lýsa nokkuð öðru ástandi heldur en mbl.is sagði frá í umfjöllun sinni af Alþingi í dag. Þá virtist staðan heldur snúin þar sem því var lýst að flokkar minnihlutans væru ekki á einu máli hvað varðar þær kröfur sem flokkarnir gera til meirihlutans til þess að samningur náist.
Birgir Ármannson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, segir í samtali við mbl.is að ekkert nýtt hafi gerst sem segir til hver niðurstaða verður varðandi þinghald, þar sem ekkert er í hendi að svo stöddu.