Kosið að fara ekki tveggja stoða leiðina

mbl.is/Hjörtur

Fram kemur í greinargerð með þingsályktunartillögu Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra, um samþykkt á persónuverndarlöggjöf Evrópusambandsins, að ákveðið hafi verið að fara ekki eftir tveggja stoða kerfi EES-samningsins við innleiðingu hennar. Engin tillaga var raunar gerð um að sú leið yrði farin að því er segir í greinargerðinni.

Tveggja stoða kerfið er sá grundvöllur sem EES-samningurinn hefur hvílt á og gengur í stuttu máli út á það að þau ríki Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) sem aðild eiga að samningnum, Ísland, Noregur og Liechtenstein, séu ekki undir ákvarðanavald stofnana Evrópusambandsins sett heldur einungis stofnana sem haldið er úti af EFTA og sem ríkin eiga aðild að.

Tvær leiðir voru einkum til skoðunar varðandi innleiðingu persónuverndarlöggjafarinnar, að Eftirlitsstofnun EFTA tæki ákvarðanir gagnvart EFTA/EES-ríkjunum með sama hætti og ákveðið var með fjármálaeftirlit Evrópusambandsins á sínum tíma, eða að Persónuvernd á Íslandi heyrði beint undir ákvörðunarvald stofnunar sambandsins á sviði persónuverndar.

Vilji ESB, Noregs og Liechtenstein

Fram kemur að ákveðið hafi verið að fara seinni leiðina. Einkum vegna þess að ákvarðanir stofnunar Evrópusambandsins á sviði persónuverndar muni ekki beinast að einstaklingum og lögaðilum á Íslandi og lögaðilum heldur opinberum aðilum. Einnig kemur fram að Evrópusambandið, Noregur og Liechtenstein hafi lagt áherslu á að fara þessa leið.

Arnaldur Hjartarson, aðjúnkt við lagadeild Háskóla Íslands, benti hins vegar á það í grein í Morgunblaðið um síðustu helgi að viðurkennt væri í frumvarpi að lögum um innleiðingu persónuverndarlöggjafar Evrópusambandsins að ákvarðanir Persónuverndar byggðar á ákvörðunum stofnunarinnar kynnu að hafa áhrif á hérlenda einstaklinga og lögaðila.

Arnaldur segir ennfremur í greininni að innleiðing persónuverndarlöggjafar Evrópusambandsins virtist fara gegn stjórnarskránni og hvatti til þess að Alþingi tæki sér nauðsynlegan tíma til þess að kanna hvort gætt hafi verið fyllilega að ákvæðum hennar í samningaviðræðum ríkisins við viðsemjendur sína á vettvangi EES-samningsins.

Ráðherrar í ríkisstjórninni hafa harðlega gagnrýnt kröfur ESB um að Ísland, Noregur og Liechtenstein samþykki að gangast beint undir vald stofnana sambandsins og að tveggja stoða kerfi EES-samningsins sé þannig sniðgengið. Þar á meðal Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.

Mikilvægt mál en þarf að skoða betur

Til stendur að greiða atkvæði um þingsályktunartillögu utanríkisráðherra á þingfundi í dag en síðari umræða um hana fór fram í gærkvöldi. Þar tóku þrír þingmenn til máls eftir að Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður utanríkismálanefndar Alþingis, gerði grein fyrir málinu.

Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Miðflokksins, hvatti til þess að Alþingi tæki sér meiri tíma til þess að fara yfir málið. Ekki síst í ljósi athugasemda frá lögspekingum þess efnis að ekki hafi verið gætt nægjanlega vel að því hvort það stæðist stjórnarskrána.

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, sagði löggjöfina skref í rétta átt þegar kæmi að vernd persónuupplýsinga almennings. Ekki síst á netinu. Fór hann yfir ýmislegt dæmi þar sem ekki hafi verið farið varlega í þeim efnum og um það sem þyrfti að varast.

Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, sagði málið mikilvægt en tók undir með Gunnar Braga um að það væri að koma alltof seint inn í þingið. Málið þyrfti meiri og ítarlegri umfjöllun og að huga þyrfti meðal annars að samspili þess við stjórnarskrána. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert