Kröfu Glitnis vísað frá Hæstarétti

Kröfu Glitnis HoldCo var vísað frá dómi.
Kröfu Glitnis HoldCo var vísað frá dómi. mbl.is/Eggert

Hæstiréttur hefur vísað frá kröfu Glitnis HoldCo þess efnis að Stundin og Reykjavík Media afhendi gögn úr gamla Glitni sem þeir hafa und­ir hönd­um um viðskipta­vini Glitn­is. Þar á meðal gögn um viðskipti Bjarna Bene­dikts­son­ar fjár­málaráðherra og fjöl­skyldu hans.

Bæði Landsréttur og Héraðsdómur Reykjavíkur höfðu áður komist að þeirri niðurstöðu að fjölmiðlunum bæri ekki að afhenda gögnin og lögbann sýslumanns því fellt úr gildi.

Þrotabú Glitnis krafðist lögbanns á fréttaflutning Stundarinnar og Reykjavík Media sem unnin var upp úr gögnum úr gamla Glitni. Sýslumaður varð við kröfu Glitnis en Héraðsdómur Reykjavíkur felldi úrskurðinn úr gildi.

Landsréttur staðfesti þann dóm héraðsdóms en Glitnir áfrýjaði til Hæstaréttar. Í niðurstöðu Hæstaréttar kemur meðal annars fram að ekki hafi verið heimilt að kæra niðurstöðu Landsréttar til Hæstaréttar vegna þess að í úrskurði Landsréttar voru staðfest ákvæði í dómi héraðsdóms um frávísun.

Sóknaraðila, Glitnir HoldCo, er gert að greiða varnaraðilanum, Stundinni og Reykjavík Media, 600 þúsund krónur í kærumálskostnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert