Segja fjármálaáætlun „tálsýn og draumsýn“

Þingflokkur Samfylkingarinnar sagði á blaðamannafundi geta notað tekjur ríkisins með …
Þingflokkur Samfylkingarinnar sagði á blaðamannafundi geta notað tekjur ríkisins með skynsamlegri hætti en í skattalækkanir. mbl.is/​Hari

Fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er „tálsýn og draumsýn,“ sagði Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar, á blaðamannafundi þingflokksins sem haldinn var í Alþingishúsinu í dag. Samfylkingin kynnti 10 tillögur flokksins sem hann sagði full fjármagnaðar með því að afturkalla skerðingar ríkisstjórnar í tekjustofn ríkisins.

Skattastefna ríkisstjórnarinnar var sérstakt umtalsefni, en fyrirhugað er að fjármagna tillögur Samfylkingarinnar í gegnum skattkerfið.

„Þetta er skattastefna sem færir þeim hálaunuðu þrisvar sinnum meira en þeim tekjulægstu,“ sagði Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, um stefnu ríkisstjórnarinnar. Hann nefndi máli sínu til stuðnings „lækkun bankaskatts og lækkun veiðigjalda, en við sjáum til hvernig það mál fer.“

„Eitraðan kokteil“

Ágúst sagði það ámælisvert að meirihlutinn hafði ekki gert neinar breytingar á eins umfangsmiklu máli sem „sýnir að Alþingi er bara stimpilstofnun í augum ráðherra.“ Sagði hann áætlunina byggja á að hér á landi verði 13 ára samfellt hagvaxtarskeið og að gengi krónunnar haldist óbreytt. „Að okkar mati er þetta pólitísk tálsýn og draumsýn,“ sagði Ágúst

Þingflokksformaður Samfylkingarinnar, Oddný G. Harðardóttir tók í sama streng og Ágúst og sagði stjórnarflokkana hræra í „eitraðan kokteil.“ Hún bætti við að alvarlegt mál að ekki væri verið koma til móts við þarfir Landspítalans og benti á að hann þurfi 87 milljarða til viðbótar yfir næstu fimm árin.

Oddný sagði einnig að ekki stæði til að auka barnabætur og vaxtabætur sem hafa ekki fylgt launaþróun. „Staða barnafólks hefur versnað,“ staðhæfði hún.

Tillögur Samfylkingarinnar

Samfylkingin kynnti sínar breytingartillögur í morgun, en þær eru í tíu liðum.

  1. Framlög aukin um 6 milljarða króna til Landsspítalans og Sjúkrahússins á Akureyri.
  2. Framlög til barnabóta aukin um 3 milljarða króna og vaxtabóta um 2 milljarða króna.
  3. Framlög til framhaldsskóla aukist um 400 milljónir króna og háskóla um 3 milljarða króna.
  4. Einum milljarð bætt í átak í samgöngumálum.
  5. Framlög til að bæta kjör aldraðra aukist um 1,5 milljarð króna.
  6. Framlög til málefni öryrkja aukist um 3 milljarða króna til að mæta krónu-á-móti-krónu skerðingunni.
  7. Stofnframlög til almennra íbúða aukist um 1,5 milljarð króna.
  8. Framlög til heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni aukist um 500 milljónir króna.
  9. Heilsugæslan efld með 400 milljónir króna viðbót.
  10. Framlög til þróunarsamvinnu aukin um 900 milljónir króna.

Tillögurnar segjast fulltrúar Samfylkingarinnar geta fjármagnað með því að falla frá 1 prósentustigs lækkun tekjuskatts, hætta við niðurfellingu bankaskattsins og afnám samsköttunar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert