Þetta hefði ekki þurft að gerast

Horft fram á veginn. Hafrún Anna Sigurbjörnsdóttir og Óskar Veturliði …
Horft fram á veginn. Hafrún Anna Sigurbjörnsdóttir og Óskar Veturliði Sigurðsson vilja segja söguna í von um að það fyrirbyggi svipuð atvik í framtíðinni. Haraldur Jónasson/Hari

„Stórt gapandi sár á milli augna og upp á næstum mitt enni. Virðist vanta húðflipa í. Tveggja cm sár á ofanverðri hægri kinn. Djúpir skurðir við gagnaugu beggja vegna. Bit á hægri framhandlegg. Bit í vinstri lófa. Sár niður með nefrót beggja vegna. Tveggja cm sár vinstra megin á enni. Er í uppnámi og endurtekur að hann sé of lítill til að deyja núna.“

„Þegar ég tók hjálminn af honum blasti við mér stórt …
„Þegar ég tók hjálminn af honum blasti við mér stórt gapandi sár frá miðju enni og niður að nefrót þannig að sást í höfuðkúpuna. Það vantaði stórt stykki í andlitið á barninu og þaðan fossaði mesta blóðið,“ rifjar Hafrún, móðir Sólons, upp. Ljósmynd/Aðsend

Þetta er meðal þess sem kemur fram í færslum um Sólon Brimi, fimm ára gamlan dreng í Kópavogi, sem ritaðar voru í sjúkraskrá hans á bráðamóttöku Landspítalans síðdegis föstudaginn langa í ár, skömmu eftir að hann varð fyrir árás hunds nágranna síns. Sólon litli, sem reyndar er nú orðinn sex ára, hefur þegar farið í þrjár aðgerðir í andliti, með svæfingu, fyrir honum liggur að fara í a.m.k. jafnmargar til viðbótar og hann er enn að fást við ýmsar afleiðingar árásarinnar, ekki síst sálrænar.

„Við erum einfaldlega óendanlega hamingjusöm yfir því að ekki fór verr,“ segja móðir hans og stjúpfaðir Hafrún Anna Sigurbjörnsdóttir og Óskar Veturliði Sigurðsson. Hjónin segjast hvorki vera reið né bitur út í neinn vegna árásarinnar og vilja segja sögu Sólons í von um að það fyrirbyggi svipuð atvik.

Hálfgert ískur, síðan öskur

Þau höfðu um skeið haft áhyggjur af ógnandi hegðun hundsins, sem var af Alaskan Malamute-kyni. Þau segja að margir í nágrenninu hafi haft varann á sér gagnvart hundinum, hann hafi virst vera eftirlitslaus í ógirtum garði, tjóðraður við ketilbjöllur, sem hann ætti auðveldlega að geta dregið á eftir sér. Þá hafði hundurinn margoft verið laus í hverfinu og vakið ótta bæði fullorðinna og barna.

Þennan dag, 30. mars síðastliðinn sem var föstudagurinn langi, voru hjónin heima við ásamt ættingjum sínum. Hafrún var barnshafandi, hún var komin tíu daga fram yfir og til stóð að hún færi á fæðingardeildina þar sem setja átti hana af stað. Óskar og bróðir Hafrúnar fóru út til að dytta að og Sólon fór með, enda einstaklega gott veður þennan dag. „Hann vildi líka vinna eins og við og setti vatn í litlar hjólbörur sem hann keyrði um alla lóð. Við ætluðum síðan út að hjóla og ég sagði honum að setja hjálminn á sig. Við mágur minn settumst aðeins út í sólina og þá heyrði ég skrýtið hljóð. Hálfgert ískur, síðan fylgdu hávær öskur frá Sóloni. Þetta var þannig hljóð að ég vissi að eitthvað mikið var að,“ segir Óskar.

„Sólon litli er of lítill til að deyja“

Hafrún sat á efri hæð hússins ásamt móður sinni þegar hún heyrði að Sólon kom inn og að hann gaf frá sér einkennilegt hljóð. „Ég sá andlitið á honum í spegli í anddyrinu og ég trúði ekki því sem ég sá. Það fyrsta sem mér datt í hug var að hann hefði dottið á hjólinu. Ég hljóp niður og þar var blóð úti um allt. Hann var með hjólahjálminn, andlitið þakið blóði og hendurnar blóðugar. Þegar ég tók hjálminn af honum blasti við mér stórt gapandi sár frá miðju enni og niður að nefrót þannig að sást í höfuðkúpuna. Það vantaði stórt stykki í andlitið á barninu og þaðan fossaði mesta blóðið. Ég sá ekki í fyrstu hvort það væri í lagi með augun á honum og ég spurði hann aftur og aftur; hvað gerðist, hvað gerðist?“ segir Hafrún. „En hann gat engu svarað. Ég spurði hann; Beit hundurinn þig? og þá kinkaði hann kolli, fékk þá málið og sagði aftur og aftur: „Ég er of lítill til að deyja. Ég er of lítill til að deyja. Sólon litli er of lítill til að deyja. Þetta endurtók hann í sífellu, líka eftir að hann var kominn í sjúkrabílinn.“

Kátur og kraftmikill. Sólon litli hefur staðið sig einstaklega vel …
Kátur og kraftmikill. Sólon litli hefur staðið sig einstaklega vel eftir árásina, en tíminn verður að leiða í ljós hvort hann nær sér að fullu. Haraldur Jónasson/Hari

Leitaði að hlutanum sem hundurinn beit úr andlitinu

Hafrún fór með Sóloni í sjúkrabíl á sjúkrahúsið en Óskar varð eftir til að taka á móti lögreglunni. Blóðslóð lá frá staðnum þar sem hundurinn réðst á Sólon og að heimilinu og hann fór að leita að hlutanum sem hundurinn beit úr andlitinu, en fann hann ekki. „Ég vildi láta eigendurna vita hvað hefði gerst, fór að húsinu og var dauðhræddur við hundinn. En hann sat þarna hinn rólegasti, ég hafði aldrei séð hann jafnrólegan,“ segir Óskar. Enginn svaraði á heimilinu þegar hann knúði dyra, ekki náðist í hundaeftirlitsmann til að fjarlægja hundinn og þá ákvað lögreglan að kalla til sérsveit ríkislögreglustjóra. Óskar sendi eigendum hundsins skilaboð um hvað gerst hafði og komu þeir skömmu síðar.

Hundinum var lógað nokkrum dögum síðar.

Þakklát fyrir hlýhug

Sólon fór strax í aðgerð þar sem hægt var að loka flestum sárum hans, en ekki því stærsta. Það var ekki hægt fyrr en fimm dögum síðar þegar hann fór í aðgerð þar sem tekinn var húðflipi fyrir aftan eyrað á honum og hann saumaður á ennið og á milli augnanna. Í frétt mbl.is þann 3. apríl af árásinni kom m.a. fram að 80 spor hefðu verið saumuð í andlit Sólons en Óskar segir að þau séu líklega talsvert fleiri, líklega vel á annað hundrað, þegar allt er talið saman. Þau fengu ekki að vita fyrr en að lokinni fyrri aðgerðinni, seint um kvöldið, að hægra augað í honum væri óskemmt og heilt. „Það var mikill léttir, ég get ekki lýst því,“ segir Hafrún.

Áverkar Sólons eftir árásina.
Áverkar Sólons eftir árásina. Ljósmynd/Aðsend

Hjónin bera öllu starfsfólki Landspítalans afar góða söguna. Komið hafi verið fram við bæði Sólon og þau af einstakri nærgætni og fagmennsku. Það sama segja þau um starfsfólk Sólhvarfa, leikskóla Sólons og í Vatnsendaskóla þar sem Eldon, eldri bróðir hans, er í 2. bekk og Sólon mun hefja þar nám í haust. „Það er alveg einstakt hvað fólk hefur verið gott við okkur. Fjölmargir úr nágrenninu hafa komið til okkar, sumt er fólk sem við þekktum lítið sem ekkert, til að óska Sóloni góðs bata og bjóða okkur aðstoð sína. Það er alveg ótrúlega fallega gert,“ segja þau með þakklæti.

Hjólahjálmurinn sem Sólon bar þegar hann varð fyrir árásinni.
Hjólahjálmurinn sem Sólon bar þegar hann varð fyrir árásinni. Ljósmynd/Aðsend

Báðu um að atvikið yrði skoðað

Tveimur og hálfum mánuði fyrir árásina á Sólon réðst hundurinn á póstburðarmann. Hann beit í handlegginn á honum til blóðs í gegnum úlpu þannig að hún rifnaði. Hann læsti lykla sína inni í bíl sínum, sem var í gangi og leitaði til Hafrúnar og Óskars sem buðu honum inn á meðan hann beið eftir neyðarþjónustu til að opna bílinn.

Sama dag tilkynntu þau atvikið til Heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðisins (HHK) sem ber ábyrgð á hundaeftirliti á svæðinu. Þar var þeim tjáð að þau gætu ekki lagt fram nafnlausa tilkynningu, hún yrði að vera undir fullu nafni þess sem tilkynnir, þau gætu ekki tilkynnt hundsbit fyrir annan aðila og ekki væri hægt að tilkynna ógnandi hegðun hunda. Ef þau vildu að eitthvað yrði gert, þá yrðu þau að kæra fyrir dýraníð. „Okkur fannst það fullmikið. Við vissum ekkert um hvort hundurinn sætti illri meðferð eða ekki og leið eins og við værum að klaga nágranna okkar fyrir eitthvað sem við vissum ekkert um. Þannig að við báðum um að atvikið yrði skoðað. Það var ekki gert og núna sjáum við eftir því að hafa ekki farið lengra með málið,“ segir Hafrún.

Á sjúkrahúsi.
Á sjúkrahúsi. Ljósmynd/Aðsend

„Þarna var HHK látið vita af þessu og kaus að gera ekki neitt. Hvers vegna var ekki a.m.k. komið á staðinn og aðstæður hundsins kannaðar?“ spyr Óskar.

Um miðjan síðasta mánuð sendu Óskar og Hafrún erindi til HHK þar sem þau lýstu vonbrigðum sínum með að ekki hefði verið brugðist við því þegar þau létu vita af árásinni á póstburðarmanninn. Þau spyrja þar ennfremur hvort það, að starfsmaður HHK hafi látið hjá líða að tilkynna um atvikið, hafi verið brot á ákvæði í lögum um velferð dýra sem kveður á um tilkynningaskyldu þegar grunur leikur á að dýr sæti illri meðferð. Ennfremur lýsa þau yfir undrun sinni á því að þeim hafi ekki verið sagt, þegar þau tilkynntu árásina á póstinn, að þau gætu haft samband við MAST í tilvikum sem þessum og lagt þar inn nafnlausa ábendingu.

Óljóst hvernig ferlið virkar

Fyrir tveimur vikum sendu hjónin erindi til MAST þar sem þau óskuðu eftir upplýsingum um hvort stofnuninni hefði verið tilkynnt um árásina á póstburðarmanninn. „Ef MAST vissi af þessu máli, hvað gerði MAST í því?“ segir í erindinu. Þar er ennfremur spurt um hvað stofnunin geri þar sem um skýr brot á lögum um velferð dýra sé að ræða, sérstaklega því ákvæði þeirra sem kveður á um tilkynningaskyldu þegar grunur leikur á að dýr sæti illri meðferð. „Það virðist samt engin tilkynningaskylda eða brot á lögum ef hundur ræðst á fólk eða önnur dýr,“ segja þau.

Ásökuðu sjálf sig

Eftir atvikið með póstburðarmanninn sögðust eigendur hundsins ætla að halda hundinum innandyra þangað til þau myndu reisa girðingu fyrir hann á lóðinni. „Það var því miður ekki gert,“ segir Óskar. Í skýrslu lögreglu sem gerð var eftir árásina á Sólon er haft eftir eiganda hundsins að „aldrei fyrr hafi slíkt atvik komið upp með hundinn og hann hafi aldrei sýnt slíka hegðun áður“. Póstburðarmaðurinn sagði í viðtali við Vísi.is að hann hefði ekki viljað tilkynna atvikið til lögreglu, því hann hefði ekki viljað valda því að hundurinn yrði tekinn af eigandanum. Hann sagðist sjá mikið eftir því og sagði ennfremur að eigandi hundsins hefði ekki bætt sér úlpuna sem rifnaði og sagt að hann gæti sjálfum sér um kennt vegna þess að hann hefði stigið ofan á hundinn og að það hefði verið hundalykt af honum sem hefði æst hundinn.

Á batavegi. Sólon fór í aðgerð þar sem húðflipi var …
Á batavegi. Sólon fór í aðgerð þar sem húðflipi var tekinn fyrir aftan eyra hans og saumaður á enni og á milli augnanna. Haraldur Jónasson/Hari

Hafrún segir að þau hjónin hafi farið í gegnum tímabil þar sem þau ásaki sjálf sig fyrir atvikið. „Þeir einu sem við höfum verið reið út í erum við sjálf,“ segir hún. „Af hverju vorum við ekki ákveðnari þegar við hringdum fyrst í hundaeftirlitið? Af hverju gúggluðum við ekki þessa hundategund – þá hefðum við vitað að sums staðar eru þessir hundar bannaðir og með þekkta árásarhegðun? Við höfum farið í gegnum þennan dag ótal sinnum, skipulagt hann upp á nýtt í huganum og alltaf verið einhvers staðar annars staðar þennan dag en heima með Sólon. En það er ekki hægt. Þetta gerðist,“ segir Hafrún.

„Það leikur enginn vafi á að það var ekki nægilegt eftirlit með dýrinu og það virðist ekki vera nokkurt eftirlit með því hvernig fólk hugsar um hundana sína og aðbúnaði þeirra. Þetta var ekki slys, þetta var árás sem hefði vel verið hægt að koma í veg fyrir ef öllum reglum hefði verið fylgt. Samkvæmt reglugerðum um hundahald eiga hundar, sem hafa bitið, að vera með múl og enginn hundur á að vera laus. Ég held að ef hundurinn hefði ekki bitið Sólon hefði hann bitið einhvern annan. Hver ber ábyrgðina? Er það eigandinn sem veit að hundurinn hefur bitið mann? Eða er það heilbrigðiseftirlitið sem hefur lítið sem ekkert eftirlit með hundahaldi fólks? Það er til bannlisti með tilteknum hundategundum – hvað þarf hundategund eiginlega að gera til að vera á þeim lista? Þetta andvaraleysi kostaði hundinn lífið og varð barninu okkar að heilsutjóni.“

Af hverju er ég með sár?

Fyrstu dagana eftir árásina var Sólon í miklu áfalli og á milli svefns og vöku. Hann spurði ítrekað: Af hverju er ég með sár? Af hverju er ég bara með eitt auga? en eftir aðgerðina var annað augað alveg lokað. Hann var á sterkum verkjalyfjum og fór í tvær aðgerðir með svæfingu með skömmu millibili. Spurð um hvort eða hvernig þau ræði árásina við hann segjast Hafrún og Óskar hafa tekið þá ákvörðun að leyfa honum að ráða ferðinni í þeim efnum. Hann hefur af og til átt frumkvæði að því að ræða árásina við þau en einnig við ókunnuga sem hann hittir á förnum vegi. „Stundum finnst honum óþægilegt að tala um þetta, því honum finnst þetta þá vera að gerast aftur,“ segir Óskar.

Martraðir um hunda og ketti

Þau segja drenginn vera einstaklega skapgóðan og léttan í lund, kátan og kraftmikinn, og að þeir eiginleikar hafi fleytt honum yfir mestu erfiðleikana. Hann hefur, að sögn móður sinnar og stjúpföður, staðið sig einstaklega vel eftir árásina, en tíminn muni leiða í ljós hvort hann nær sér einhvern tímann að fullu. Hann finnur oft fyrir talsverðum sársauka í sárunum, sérstaklega á svæðinu á milli augnanna þar sem húðin var grædd á, því þar er ekkert fitulag undir húðinni. Þau segja líka ýmislegt benda til þess að lyktarskyn hans hafi breyst.

Spurð um andlegu líðanina segja þau að áhersla hafi verið lögð á það frá byrjun að þau fengju öll áfallahjálp og að Sólon hafi rætt við sálfræðing. „Þetta hefur haft gríðarleg áhrif á hann,“ segir Hafrún. „Það hefur orðið mikil persónuleikabreyting, hann fær oft martraðir um að hundur sé að bíta hann eða borða hann, köttur að klóra hann eða einhver að skera hann. Fyrst eftir árásina máttum við ekki koma við hann, hann getur ekki verið einn, hann er miklu háðari okkur en áður og eltir okkur um allt eins og skugginn. Um daginn lagði krakki höndina yfir andlitið á honum og hann bókstaflega trylltist af hræðslu; grét og grét, svitnaði og fölnaði. Hann er gríðarlega viðkvæmur fyrir því að fá eitthvað yfir andlitið á sér.“

„Ég hélt að hann væri vinur minn“

Sólon hefur komist í kynni við allnokkra hunda í gegnum tíðina, t.d. eiga afi hans og amma hunda sem honum þykir afar vænt um og talar gjarnan um sem systkini sín. Eftir árásina hefur hann haldið sig til hlés í návist hunda og það sama á reyndar við um foreldra hans. „Hann hefur sagt um árásarhundinn: Ég hélt að hann væri vinur minn,“ segir Óskar. „Ég veit ekki hvers vegna hann beit mig. En tíminn verður bara að leiða í ljós hvernig hans viðhorf til hunda verða í framtíðinni.“

Lítill gleðigjafi

Fjórum dögum eftir árásina fæddist þeim Hafrúnu og Óskari sonur. Reyndar var hún hálfpartinn komin af stað í fæðingu hinn 30.3., en við árásina datt það ferli niður og fór ekki af stað fyrr en ljóst varð að Sólon væri hólpinn. „Ég hef fengið þá skýringu að adrenalínið, sem bókstaflega flæddi þegar þetta gerðist, hafi stöðvað allt fæðingarferlið,“ segir Hafrún. „Ég sat við sjúkrarúmið hans Sólonar þegar ég fann að þetta var að fara aftur af stað og sagði við hann að ég þyrfti að fara frá honum því ég væri að fara að fæða barnið.“

Sólon þurfti að vera heima við í nokkrar vikur eftir árásina og fór ekki á leikskólann um skeið og var litli bróðirinn honum sannkallaður gleðigjafi.

Mun bera ör alla ævi

Núna er málið í þeim farvegi að lögregla skoðar hvort tilefni sé til að leggja fram kæru á hendur eiganda hundsins. Sólon er með réttargæslumann sem gætir hagsmuna hans, sem er að öllu jöfnu venja þegar börn eiga í hlut, og eru málefni drengsins í hans höndum.
Hafrún og Óskar segja að það sé mikill léttir að koma málinu í þetta ferli þannig að sérhæfður aðili geti gætt hagsmuna Sólons. „Sem betur fer fór ekki verr, gróandinn er ótrúlega hraður en samt mun hann bera ör í andliti alla ævi,“ segir Óskar.

Haraldur Jónasson/Hari

Hafrún og Óskar segja að það sem fjölskyldan hafi gengið í gegnum undanfarnar vikur hafi svo sannarlega verið gríðarstórt verkefni. „Við gerum okkur líka grein fyrir að það er svo margt sem getur gerst í lífi fólks, margt svo miklu verra en þetta. En stóra málið er að þetta hefði ekki þurft að gerast ef það hefði verið brugðist rétt við frá upphafi.“

Bit sem skaða ætti alltaf að tilkynna lögreglu

Fólk fær sér stóra hunda og gerir sér enga grein fyrir því hvað það er með í höndunum. Það er vís leið til óhappa. Þetta segir Björn Ólafsson hundaatferlisfræðingur. „Hvolpar eru svo hryllilega sætir, fólk fellur fyrir þeim og áttar sig ekkert á hvernig hundurinn verður þegar hann verður stór,“ segir Björn sem segir að allt of fáir fari á hlýðninámskeið með hunda sína eða kynni sér reglugerðir um hundahald.
Hann segir að reglugerðir um hundahald séu nokkuð mismunandi á milli sveitarfélaga. T.d. kveði samþykkt um hundahald í Reykjavík á um að aflífa megi hund eftir að hann hafi bitið eða valdið öðrum skaða í tvígang. „En það gengur illa að fylgja þessu eftir,“ segir Björn. „Það er líklega vegna þess að við erum svo fá og það vill enginn valda því að hundur sé tekinn af fólki.“
Að mati Björns ætti alltaf að tilkynna það til lögreglu þegar hundur bítur þannig að hann valdi skaða. Stórir og sterkir hundar sem hafi verið „talsvert í tísku“ valdi eðlilega meiri skaða en litlir hundar. Hann segir að þetta snúist fyrst og síðast um eigandann og viðhorf hans. „Hundi sem bítur er viðbjargandi ef hann er í réttum höndum. Það er mikil vinna að vinda ofan af svona vandamáli, þegar hundur er kominn í þessa stöðu þarf stöðugt að fylgjast með honum og það er ekki á allra færi,“ segir Björn og vísar í rannsókn sem gerð var í Bretlandi meðal 17.000 eigenda hunda sem höfðu bitið. „Það kom öllum jafn mikið á óvart að hundurinn þeirra hefði gert þetta og fáir trúðu þessu upp á hann,“ segir Björn.

Hægt að koma í veg fyrir ýmis vandamál

Hann segir að margt geti valdið því að hundar bíti. Ein þekkt ástæða sé þegar þeir séu skildir eftir tjóðraðir og eftirlitslausir og þá finnist þeim þeir þurfa að gæta hússins, þeir hafi ekki flóttaleið og finnist þeir þurfa að verja sig. Það auki á hættuna ef þeir eru með bein eða eitthvert leikfang hjá sér, því þá þurfi þeir að passa það líka. „Ég get ekki lagt nógu mikla áherslu á að fólk kynni sér hundategundina sem það ætlar að fá sér áður en það lætur til skarar skríða. Þannig er hægt að koma í veg fyrir ýmis vandamál og slys,“ segir Björn.

Telja sig hafa brugðist rétt við

Á vefsíðu Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis, HHK segir að eftirlitið fylgi eftir ábendingum sem berist um að ekki sé staðið við sett skilyrði um hundahald.
Guðmundur H. Einarsson, framkvæmdastjóri HHK, segir það vera sitt mat að eftirlitið hafi brugðist við samkvæmt hlutverki sínu í þessu tiltekna máli. Hann hafi sjálfur svarað í símann þegar áðurnefnt símtal barst. Þar hafi viðmælandinn verið að leita sér upplýsinga um hvernig bregðast mætti við ónæði frá hundi en tilefnið hafi verið árásin á póstburðarmanninn. Niðurstaðan hafi orðið sú að sá sem hringdi hafi fyrst viljað freista þess að ræða við nágrannann. Póstburðarmaðurinn hafi ekki haft samband sjálfur. „Við hjá HHK vorum tilbúin að skoða málið, en við getum ekki fundið upp á sjálf að vinna í málum þvert á vilja þess sem fyrir þeim verða,“ segir Guðmundur.

Eftirlitshlutverk heilbrigðiseftirlitsins lítið

Spurður hvert fólk eigi að snúa sér verði það fyrir hundsbiti, segir hann að hafa eigi samband við lögreglu. „Þegar slíkt gerist á hinn almenni borgari að hringja í 112 rétt eins og í öðrum bráðatilfellum og ef nálgast þarf hund sem er brjálaður er það lögreglumál. Lögregla er viðbragðsaðili, við erum það ekki og höfum í rauninni engar heimildir til þess.“ Guðmundur segir að lögreglu sé ekki skylt að láta HHK vita um slíkar tilkynningar en það gerist oft.

En hvert er þá eftirlitshlutverk HHK varðandi hundahald? „Það er satt best að segja lítið og snýr fyrst og fremst að hollustuháttum og ónæði. Hundum fjölgaði talsvert fyrir nokkrum árum og við höfum ekki fjölgað starfsmönnum í samræmi við þessa fjölgun.“

Á vefsíðu HHK er listi yfir þá hunda sem bannað er að halda í umdæmi eftirlitsins. Þar eru m.a. Pitbull Terrier, blendingar af úlfum og hundum og nokkrar tegundir veiði- og árásarhunda. Spurður hvort til greina hafi komið að bæta tegundinni Alaskan malamute á listann í ljósi þess að hundar þessarar tegundar hafa ráðist á og bitið a.m.k. þrjá einstaklinga á undanförnum mánuðum segir Guðmundur það ekki vera á valdsviði eftirlitsins, heldur sé það Matvælastofnunar, MAST, að ákveða það.

Frá MAST fengust þær upplýsingar að stofnuninni hefðu ekki borist neinar upplýsingar um þetta tiltekna atvik frá HHK. Einu upplýsingarnar sem MAST hefði um atvikið hefði stofnunin fengið úr umfjöllun fjölmiðla. Léki einhver grunur á því að aðbúnaður eða meðferð dýra væri ekki í samræmi við lög bæri að tilkynna það til stofnunarinnar. „En þegar hundur bítur fólk á ekki að tilkynna það til okkar, heldur til lögreglu eða viðkomandi heilbrigðiseftirlits,“ segir í svari MAST.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert