Athugasemd er gerð við hvernig velferðarráðuneytið tók á málum Barnaverndarstofu og forstjóra stofnunarinnar, Braga Guðbrandssonar. Velferðarráðuneytið gerði ekki nægjanlega mikið til þess að kanna hvort kvartanir hafi átt rétt á sér. Ávirðingar voru þess eðlis að ráðuneyti bar að gera frekari athuganir. Niðurstaða úttektarinnar er að Bragi hafi ekki brotið af sér með upplýsingagjöf til afa barna í Hafnarfirðinum, svo kölluðu Hafnarfjarðarmáli, en að velferðarráðuneytið hafi gerst brotlegt við grundvallarreglur stjórnsýsluréttarins um andmælarétt, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga.
Barnaverndarnefndir Reykjavíkur, Kópavogs og Hafnarfjarðar gerðu undir lok síðasta árs alvarlegar athugasemdir við háttsemi og framgöngu forstjóra stofnunarinnar, Braga Guðbrandsson, og starfsfólks hennar. Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, er í eins árs leyfi frá stofnuninni. Niðurstaða óháðrar úttektar á málsmeðferð og efnislegri athugun velferðarráðuneytisins í kjölfar kvartana barnaverndarnefnda á höfuðborgarsvæðinu vegna Barnaverndarstofu og forstjóra hennar var kynnt á fundi með blaðamönnum í dag.
Niðurstaða úttektar sem unnin er af Kjartani Bjarna Björgvinssyni og Kristínu Benediktsdóttur og Kjartan kynnti á fundi með blaðamönnum er sú að þær ávirðingar sem settar voru fram og beindust að störfum forstjórans þess eðlis að ra´ðuneytinu bar að afla frekari upplýsinga um þær til þess að það gæti tekið afstöðu til þess hvort tilefni væri að hefja frekari athugun á störfum forstjórans hjá Barnaverndarstofu og þá eftir atvikum hvort leggja ætti málið í formlegan farveg samkvæmt lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna eða taka ákvörðun um að aðhafast ekki frekar.
Í úttektinni er einnig fundið að þeirri niðurstöðu sem velferðarráðuneytið tilkynnti forstjóra Barnaverndarstofu 27. febrúar 2018 að hann hafi átt að beina máli sem hann hafði afskipti af hjá barnavernd Hafnarfjarðar í annan farveg og að hann hafi farið út fyrir verksvið sitt með því að gera það ekki.
Að sögn Kjartans er boltinn nú í höndum velferðarráðherra, Ásmundar Einars Daðasonar, um hver næstu skref verða í málinu.
Úttektin var rædd á fundi ríkisstjórnar í morgun en hana má lesa í heild hér
Forsætisráðuneytið tilkynnti 2. maí að samkvæmt tillögu Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra, hafi verið ákveðið að fram færi óháð úttekt á tilteknum málum á sviði barnaverndar hér á landi, sem verið hefðu til umfjöllunar í velferðarráðuneytinu og hjá velferðarnefnd Alþingis.
Í tilkynningu forsætisráðuneytisins kemur fram að úttektin sé unnin að ósk Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og jafnréttismálaráðherra. Í úttektinni verði farið yfir fyrirliggjandi gögn málsins og málsmeðferð viðkomandi stjórnvalda, þ.e. þeirra barnaverndarnefnda sem tengdust viðkomandi málum, Barnaverndarstofu og velferðarráðuneytis. Verkefnið muni annast Kjartan Bjarni Björgvinsson, héraðsdómari, og Kristín Benediktsdóttir, dósent við lagadeild Háskóla Íslands.
Upphaf þessa máls má rekja til kvartana sem komu fram á fundi sem Þorsteinn Víglundsson, þáverandi ráðherra félags- og jafnréttismála, átti með Tómasi Hrafni Sveinssyni, formanni barnaverndarnefndar Reykjavíkur, Þórdísi Bjarnadóttur, formanni barnaverndarnefndar Hafnarfjarðar og Kolbrúnu Þorkelsdóttur, formanni barnaverndarnefndar Kópavogs, ásamt Regínu Ásvaldsdóttur, sviðstjóra velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, en fundurinn mun hafa verið haldinn að beiðni formannanna.
Af gögnum málsins verður ráðið að tilefni fundarins hafi verið að formenn framangreindra barnaverndarnefnda töldu alvarlega stöðu vera uppi í barnaverndarmálum á höfuðborgarsvæðinu.
Á fundinum hafi verið rætt um efni minnisblaðs sem formaður barnaverndarnefndar Reykjavíkur lagði þar fram og þar sem gerðar voru athugasemdir við framkomu forstjóra Barnaverndarstofu og lögfræðing stofnunarinnar.
Í minnisblaðinu var meðal annars kvartað yfir því að forstjóri Barnaverndarstofu hafi ítrekað sýnt af sér dónaskap og ruddalega framkomu í samskiptum og á fundum með starfsfólki barnaverndarnefndar Reykjavíkur. Þá hafi forstjóri Barnaverndarstofu fjallað með ítarlegum hætti um einstakt barnaverndarmál í þættinum Kveiki, 7. nóvember 2017 og fellt þar dóma um frammistöðu einstakra starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur.
Auk þess hafi lögfræðingur á Barnaverndarstofu lýst því yfir í beinni útsendingu í þættinum Kastljós, 8. nóvember 2017, að tilteknar barnaverndarnefndir væru að reyna að grafa undan eftirlitshlutverki Barnaverndarstofu með því að beita þrýstingi á frumvarp sem væri verið að vinna að í ráðuneytinu. Hún hafi gefið í skyn að nefndirnar væru að reyna að koma sér undan eftirliti.
Einnig hefði forstjóri Barnaverndarstofu gefið starfsmönnum fyrirmæli um rekstur einstakra mála.
Í minnisblaðinu er því haldið fram að framkoma forstjóra Barnaverndarstofu einkennist af óvild í garð starfsmanna barnaverndarnefndar Reykjavíkur og vegna þessa ríki ekki lengur gagnkvæmt traust á milli barnaverndarnefndar Reykjavíkur og Barnaverndarstofu.
Óskað er eftir því að ráðherra grípi til viðeigandi úrræða vegna þeirrar alvarlegu stöðu sem komin væri upp í barnaverndarmálum á höfuðborgarsvæðinu vegna framgöngu forstjóra Barnaverndarstofu og starfsmanna hennar. Alvarlegur trúnaðarbrestur hafi átt sér stað.
Samkvæmt fundargerð, sem rituð var á fundinum 10. nóvember 2017 tóku formenn barnaverndarnefnda Hafnarfjarðar og Kópavogs undir það sem fram kom í minnisblaðinu um að alvarleg staða væri uppi í barnaverndarmálum á höfuðborgarsvæðinu.
Ráðuneytið mun í kjölfarið hafa óskað frekari upplýsinga frá formönnum barnaverndarnefndanna þriggja og ritað Barnaverndarstofu og forstjóra hennar bréf, dags. 21. nóvember 2017, þar sem það lýsti því yfir að ljóst væri að „ekki [ríkti] sá trúnaður og það traust milli aðila í málaflokknum sem [þyrfti] að vera til staðar til að tryggja nauðsynlega virkni og framþróun, sem [væri] forsenda farsæls barnaverndarstarfs í landinu.“
Í framhaldinu óskaði ráðuneytið eftir frekari upplýsingum frá Barnaverndarstofu og barnaverndarnefndum á höfuðborgarsvæðinu. Eftir nokkur samskipti við þessar stofnanir tilkynnti ráðuneytið þeim 23. febrúar 2018 að það hefði lokið skoðun sinni á málinu.
Með hliðsjón af fyrirliggjandi upplýsingum og gögnum og þeim skýringum sem ráðuneytinu hefðu verið veittar, væri það mat ráðuneytisins að til að endurheimta traust og trúnað innan málaflokksins, væri þörf á aðgerðum sem lýst væri í bréfinu, en þar sagði meðal annars: „Vinna þarf að því að aðilar málaflokksins leggi ágreining sinn til hliðar, komi sér saman um ákveðnar samskiptareglur og vinni í sameiningu samkvæmt þeim að framgangi barnaverndarstarfs.
Ráðuneytið mun fela utanaðkomandi aðila að leiða aðila til samtals og samráðs og miðla málum þannig að unnt sé að komast að sameiginlegri niðurstöðu um ásættanlega samskiptahætti og samstarf. Einnig þarf að hefja vinnu við að skýra frekar og formgera samskipti milli aðila málaflokksins með verklagsreglum eða öðrum viðmiðum. Ráðuneytið mun því skipa hóp fagaðila sem verður falið það hlutverk að móta skýrara verklag um það hvernig stjórnvöld málaflokksins eiga að haga samskiptum sín á milli og hversu formleg þau eiga að vera hverju sinni.
Ráðuneytið vill jafnframt upplýsa um fyrirhugaðar breytingar er snerta þjónustu við börn og fjölskyldur á málefnasviði ráðuneytisins. Áður hefur verið greint frá fyrirætlunum ráðuneytisins um að setja á laggirnar sérstaka gæða- og eftirlitsstofnun á sviði félagsþjónustu og barnaverndar sem mun m.a. sinna eftirliti með barnaverndarstarfi sveitarfélaga. Í ráðuneytinu er unnið að frumvarpi til breytinga á barnaverndarlögum sem miða að því að flytja eftirlit með barnaverndarstarfi sveitarfélaga í hina nýju gæða- og eftirlitsstofnun.“
Í kjölfar þess að ráðuneytið hóf athugun sína á kvörtunum barnaverndarnefnda bárust ráðuneytinu gögn, þar á meðal gögn frá barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar sem vörðuðu mál barna í Hafnarfjarðarbæ. Í því máli var meðal annars deilt um umgengni föður og föðurforeldra við börnin og því haldið fram að forstjóri Barnaverndarstofu hefði haft afskipti af deilunni.
Með bréfi, dags. 27. febrúar 2018, tilkynnti ráðuneytið forstjóra Barnaverndarstofu að út frá þeim upplýsingum sem lægju fyrir í málinu væri það „álit ráðuneytisins að forstjóri Barnaverndarstofu hafi með afskiptum sínum af málinu ekki brotið af sér í starfi en hins vegar hefði átt að beina málinu í annan farveg“.
Vísaði ráðuneytið þá til þess að samkvæmt ákvæðum barnalaga væri það sýslumaður sem byði aðilum umgengismála sérfræðiaðstoð og ráðgjöf en ekki Barnaverndarstofa. Af bréfinu má ráða að ráðuneytið teldi að með því að beina málinu ekki til embættis sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu þegar ljóst varð að um ágreining vegna umgengni væri að ræða hefði forstjórinn farið „út fyrir verksvið sitt.“
Þá gerði ráðuneytið jafnframt athugasemdir við að forstjórinn hefði greint föðurafa barnanna, sem umgengnisdeilan laut að, frá símtali við starfsmann barnaverndarnefndar og því sem þar hefði komið fram um samskipti barnaverndarnefndarinnar við móður barnanna.
Í lokaorðum úttektarinnar segir að niðurstaða þessarar úttektar á athugun og viðbrögðum velferðarráðuneytisins við þeim athugasemdum sem barnaverndarnefndir á höfuðborgarsvæðinu komu á framfæri við ráðuneytið í nóvember 2017 um starfshætti Barnaverndarstofu og framgöngu starfsfólks stofnunarinnar, einkum þó forstjóra hennar, er að velferðarráðuneytið hafi ekki gert fullnægjandi ráðstafanir með vísan til yfirstjórnunar- og eftirlitsheimilda sinna til að upplýsa það hvort og þá hvaða grundvöllur væri fyrir þeim ávirðingum sem bornar voru á Barnaverndarstofu og starfsmenn hennar.
Í því sambandi verði að leggja áherslu á að samkvæmt mati ráðuneytisins sjálfs gáfu athugasemdir barnaverndarnefndanna þriggja til kynna að veruleg vandamál hefðu skapast í barnaverndarstarfi á Íslandi og að forstjóri Barnaverndarstofu hefði brotið af sér í starfi.
Samkvæmt niðurstöðum þessarar úttektar voru þær ávirðingar sem settar voru fram og beindust að störfum forstjórans þess eðlis að ráðuneytinu bar að afla frekari upplýsinga um þær til þess að það gæti tekið afstöðu til þess hvort tilefni væri að hefja frekari athugun á störfum forstjórans hjá Barnaverndarstofu og þá eftir atvikum hvort leggja ætti málið í formlegan farveg samkvæmt lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, eða taka ákvörðun um að aðhafast ekki frekar.
Í úttektinni er einnig fundið að þeirri niðurstöðu sem ráðuneytið tilkynnti forstjóra Barnaverndarstofu 27. febrúar 2018 að hann hafi átt að beina máli sem hann hafði afskipti af hjá barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar í annan farveg og að hann hafi farið út fyrir verksvið sitt með að gera það ekki.
Er þá vísað til þess í úttektinni að hæpið sé að ráðuneytið hafi verið í aðstöðu til að fullyrða, í ljósi þeirra takmörkuðu gagna sem það aflaði við meðferð málsins, að forstjóri Barnaverndarstofu hafi farið „út fyrir verksvið sitt“ með því að beina málinu ekki til embættis sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu.
Þá eru einnig gerðar athugasemdir við það í úttektinni að ráðuneytið hafi komist að niðurstöðu í máli um afskipti forstjóra af tilteknu 103 barnaverndarmáli, án þess að forstjóranum væri gefinn kostur á að kynna sér gögnin sem niðurstaðan var byggð á og veitt tækifæri til þess að tjá sig um þau.
Í ljósi eðlis þeirrar niðurstöðu ráðuneytisins að forstjórinn hafi farið út fyrir verksvið sitt og aðfinnslum ráðuneytisins við að forstjórinn hafi greint föðurafa barna frá samskiptum barnaverndarnefndar barnanna, og þar með óbeint að hann hafi ekki hagað athöfnum sínum í samræmi við lög, samræmdist málsmeðferð ráðuneytisins að þessu leyti ekki grundvallarreglum stjórnsýsluréttarins um andmælarétt, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga.
Í úttektinni er einnig rakið að ekki verði séð að forstjóri Barnaverndarstofu hafi veitt föðurafa barna upplýsingar í andstöðu við þagnarskylduákvæði 8. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga eða 18. gr. laga nr. 70/1996.
Af gögnum málsins verði ekki annað ráðið en að upplýsingagjöf forstjórans til föðurafans hafi hvað móðurina varðar einungis lotið að þeim almennu leiðbeiningum sem starfsmaður barnaverndarnefndar veitti um hver væri hinn eðlilegi farvegur samkvæmt lögum í deilum um umgengni.
Ekki verði talið að þessi upplýsingagjöf hafi verið óeðlileg í ljósi umkvartana föðurafans um að barnaverndaryfirvöld í Hafnarfirði hafi átt þátt í því að umgengni færi ekki fram.
„Tekið er fram að niðurstöður úttektarinnar takmarkast við þau atvik sem þar er lýst og athugun ráðuneytisins samkvæmt verksamningi. Ekki er í úttektinni tekin afstaða til samskipta ráðherra við Alþingi eða hvernig ráðherra sé rétt að haga afgreiðslu á beiðni forstjóra Barnaverndarstofu um endurupptöku máls hans,“ segir ennfremur í úttekt á afskiptum velferðarráðuneytisins.
Formaður barnaverndarnefndar Reykjavíkur sendi tölvupóst til velferðarráðuneytisins 22. nóvember 2017 með samantekt frá formanni barnaverndarnefndar Reykjavíkur yfir atvik þar sem forstjóri Barnaverndarstofu hafi haft afskipti af einstaka barnaverndarmálum.
Í tölvupóstinum er tekið fram að miðað við afskipti og framgöngu forstjóra Barnaverndarstofu að undanförnu sé það mat formannsins að forstjórann bresti hæfi samkvæmt stjórnsýslulögum til að fjalla um málefni barnaverndarnefndar Reykjavíkur og jafnvel fleiri nefnda. Setja verði hæfan aðila til að sinna eftirliti með þessum nefndum.
Þá er óskað eftir því að „þessi afskipti forstjórans verði könnuð með tilliti til þess hvort brotið hafi verið gegn einhverjum ákvæðum almennra hegningarlaga, einkum og sér í lagi í þessu alvarlega tilviki frá 2017 sem kom frá Barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar.
Í samantektinni, sem fylgdi tölvupóstinum, kemur fram að tiltekin séu dæmi þar sem forstjóri Barnaverndarstofu „gaf fyrirmæli, hafði afskipti og hafði í frammi óviðeigandi framkomu við starfsfólk Barnaverndar Reykjavíkur.“
Þá segir að með slíkum afskiptum af starfsemi Barnaverndar Reykjavíkur hafi forstjóri Barnaverndarstofu að öllum líkindum brotið gegn ákvæðum laga.
Í einhverjum tilvikum virðist forstjóri Barnaverndarstofu fara út fyrir valdheimildir sínar. Í tölvupóstinum eru því næst tiltekin eftirfarandi 18 dæmi:
1. Í ágúst 2017 hafi forstjóri Barnaverndarstofu haft bein afskipti af barnaverndarmáli sem var í vinnslu hjá barnavernd Reykjavíkur. Af gögnum málsins yrði ekki ráðið að Barnaverndarstofa hafi gætt að 2. og 3. mgr. 8. gr. áður en forstjórinn leiðbeinti starfsmanni nefndarinnar.
2. Í apríl 2017 hafi forstjórinn verið „afar dónalegur í samskiptum og orðræðu við fulltrúa Barnaverndarnefndar Reykjavíkur“ á fundi með formanni barnaverndarnefndar, framkvæmdarstjóra, deildarstjórum, lögfræðingi og starfsmönnum.
Forstjórinn hafi jafnframt upplýst að hann hefði hringt í framkvæmdastjóra Barnaverndar Reykjavíkur áður en tiltekinni ráðstöfun var beitt í máli og krafist þess að hún stöðvaði ráðstöfunina. Af gögnum málsins yrði ekki ráðið að Barnaverndarstofa hafi gætt að 2. og 3. mgr. 8. gr. áður en forstjórinn gaf fyrirmæli eða tilmæli til barnaverndar Reykjavíkur
3. Í febrúar 2017 hafi forstjórinn átt símtal við starfsmann og var vísað í tiltekinn dagál sem ritaður var vegna málsins.
4. Í desember 2016 hafi forstjórinn hringt heim til framkvæmdarstjóra barnaverndar Reykjavíkur. Hann hafi verið ósáttur við þá ákvörðun deildarstjóra og lögfræðinga nefndarinnar að vinna ekki mál á meðan málið væri til skoðunar hjá Barnaverndarstofu um hvaða nefnd ætti að vinna málið. Óvíst væri hvaða gögn hafi legið að baki afstöðu forstjórans.
5. Í nóvember 2016 hafi forstjórinn haft samband við deildarstjóra barnaverndarnefndar og lagt áherslu á að tiltekið mál færi hið fyrsta í farveg og yrði kannað á grundvelli barnaverndarlaga. Hafi hann stungið upp á tilteknu úrræði. Vísað er í tiltekinn dagál sem ritaður var vegna málsins. Af gögnum málsins yrði ekki ráðið að Barnaverndarstofa hafi gætt að 2. og 3. mgr. 8. gr. áður en forstjórinn gaf fyrirmæli eða tilmæli til Barnaverndar Reykjavíkur.
6. Síðla árs 2016 hafi virst sem forstjórinn hafi lofað yfirvöldum tiltekins lands að barn yrði á Íslandi og færi ekki í umsjón annars foreldris. Framkoma lögfræðings Barnaverndarstofu á fundum með starfsmönnum barnaverndar Reykjavíkur varðandi foreldrið hafi verið óviðeigandi. Hún hafi ekki viljað að barnavernd Reykjavíkur skoðaði aðstæður foreldrisins þrátt fyrir að leiðbeiningar væru um að gera það. Í framhaldi málsins hafi komið almenn 42 fyrirskipun frá Barnaverndarstofu um að ekki mætti vista börn erlendis frá í fóstur.
7. Í september 2013 hafi forstjórinn komið að tilhögun þess að barn færi á BUGL. Starfsmaður hafi gert athugasemd við að Barnaverndarstofa og BUGL væru í samskiptum og á fundum vegna málsins án þess að starfsmaður Barnaverndar Reykjavíkur, sem fór með málið, væri upplýstur. Vísað er í tiltekinn dagál sem ritaður var vegna málsins. Ekki verði séð að lagaheimild hafi staðið til þessara beinu afskipta Barnaverndarstofu af málsmeðferð hjá barnavernd Reykjavíkur.
8. Vorið 2013 hafi barn komist fyrr inn á meðferðarheimili. Gengið hafi verið fram hjá starfsmanni barnaverndar sem hafi mótmælt í tölvupósti sem finnist ekki en starfsfólk muni eftir þessu.
9. Í jan/feb 2013 hafi forstjórinn verið staddur erlendis og engin gögn haft eða upplýsingar í tilteknu máli. Þó hafi hann kosið að tjá sig í fjölmiðlum.
10. Í júlí 2013 hafi forstjórinn hringt vegna nýrra upplýsinga í máli sem hafi verið til meðferðar hjá ákæruvaldinu. Vísað er í tiltekinn dagál sem ritaður var vegna málsins. Óvíst sé um lagagrundvöll þessara afskipta forstjóra Barnaverndarstofu.
11. Í desember 2012 hafi forstjórinn verið búinn að ræða við Barnahús og fá tíma vegna tiltekins máls. Vísað er í dagál sem ritaður var vegna málsins. Óvíst sé um lagagrundvöll þessara afskipta forstjórans.
12. Sumarið 2012 hafi barn farið beint í fóstur en aldrei á Stuðla eins og hefði þurft og verið eðlilegt. Faðir barnsins hafi haft samband beint við forstjórann og fengið það í gegn. Það hafi í raun verið öfug leið að mati starfsmanna barnaverndarnefndarinnar. Óvíst sé um lagagrundvöll þessara afskipta forstjórans.
13. Vorið 2011 hafi starfsmenn barnaverndarnefndar unnið að því að vista telpu hjá afa sínum. Forstjórinn hafi hringt í starfsmann barnaverndarnefndar og sagt afann vera góðan mann. Starfsmaðurinn hafi látið framkvæmdastjóra barnaverndar vita af þessu og verið hissa á símtalinu. Óvíst sé um lagagrundvöll þessara afskipta forstjóra Barnaverndarstofu og hvaða upplýsingar hann hafi haft um þennan tiltekna afa. Óvíst sé hvort afskipti forstjórans hafi verið í samræmi við 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 eða aðrar reglur stjórnsýsluréttarins.
14. Í desember 2010 hafi forstjórinn hringt í starfsmann barnaverndarnefndar eftir að hafa fengið tölvupósta frá ömmu barnsins og viljað fá nánari upplýsingar. Honum hafi verið sagt frá gangi málsins sem forstjórinn hafi talið vera eðlilegan og ekki séð í fljótu bragði að starfsmennirnir hefðu getað gert eitthvað öðruvísi. Vísað er í tiltekinn dagál sem ritaður var vegna málsins. Óvíst sé hvort afskipti forstjórans séu í samræmi við 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
15. Í nóvember 2009 hafi forstjórinn, þrátt fyrir að hafa lýst sig vanhæfan vegna fjölskyldutengsla við aðila máls, og þar með Barnaverndarstofa í heild sinni, tjáð sig um málið í fjölmiðlum. Vísað er til bréfs borgarlögmanns, dags. 13. nóvember 2009. Fram kemur að um sé að ræða brot forstjóra Barnaverndarstofu á 1. mgr. 14. gr. laga nr. 70/1996 og meginreglum stjórnsýsluréttar.
16. Í maí 2008 hafi forstjórinn haft samband við framkvæmdarstjóra barnaverndarnefndar, farið yfir einstakt mál, talið eftirlit hafa brugðist og fósturforeldrum ekki boðin áfallahjálp.
17. Í júlí 2002 hafi forstjórinn hringt og upplýst að faðir barns væri staddur hjá sér. Hafi forstjórinn verið upplýstur um stöðu máls sem ekki hafi verið komið í úthlutun. Forstjórinn hafi viljað að vinnsla yrði hafin. Vísað er í tiltekinn dagál sem ritaður var vegna málsins. Óljóst sé hvort forstjóri Barnaverndarstofu hafi lagaheimild fyrir því að óska eftir því að þetta mál yrði tekið fram fyrir önnur mál í vinnslu barnaverndar Reykjavíkur.
18. Tekið er fram að ártal vanti. Forstjórinn hafi hringt tvisvar í starfsmann á bakvakt á Þorláksmessu, drukkinn, vegna tveggja telpna, faðir þeirra væri vinur forstjórans. Forstjórinn hafi séð manninn í bænum með telpurnar, haft áhyggjur og hringt beint í bakvakt, í tvígang. Bakvakt hafi leitað til lögreglu sem „leitaði“ að manninum og telpunum óformlega en fann ekki. Þá vekur formaðurinn athygli á því að þau dæmi sem tiltekin eru í samantektinni séu þau sem skráð hafi verið hjá barnavernd Reykjavíkur.
Af samtölum við starfsmenn nefndarinnar sé ljóst að þessi dæmi séu í raun mun fleiri þar sem afskipti forstjóra Barnaverndarstofu hafi ekki verið skráð. Samantektinni fylgdu skráningar á símtölum Barnaverndarstofu og barnaverndar Reykjavíkur og dagáll.
Um er að ræða skráningu á símtölum 8. ágúst 2017, 20, febrúar 2017, 2. september 2013, 3. júlí 2013, 19. desember 2012, 10. desember 2010, 8. maí 2008 og 4. júlí 2002 og dagáli frá 4. nóvember 2016. Samantektin ásamt fylgigögnum var afhent forstjóra Barnaverndarstofu, í samræmi við beiðni hans, með tölvupósti 1. desember 2017.
Eitt þeirra mála sem skoðuð eru í úttektinni er svokallað Hafnarfjarðarmál sem Stundin fjallaði fyrst um á sínum tíma.
Niðurstaða Kjartans og Kristínar er sú að ekki sé hægt að sjá af gögnum málsins að Bragi hafi brotið af sér í starfi en velferðarráðuneytið gerði athugasemdir við störf hans.
„Verður að telja að með því að leggja þær upplýsingar sem þar greinir til grundvallar niðurstöðu, án þess að gefa forstjóranum tækifæri á að tjá sig um þær, hafi ráðuneytið hvorki gætt að rannsóknarskyldu sinni né andmælarétti forstjórans,“ segir í úttektinni.
Með bréfi ráðuneytisins 27. febrúar 2018 var forstjóra Barnaverndarstofu tilkynnt sú niðurstaða ráðuneytisins að hann hafi með afskiptum sínum af máli, sem var til meðferðar hjá barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar, ekki brotið af sér í starfi.
Hins vegar hafi ráðuneytið komist að þeirri niðurstöðu að forstjórinn hefði átt að beina málinu í annan farveg og með því að gera það ekki hafi forstjórinn farið út fyrir verksvið sitt.
Þá gerði ráðuneytið jafnframt athugasemdir við að forstjórinn hafi greint föðurafa barnanna, sem umgengnisdeilan laut að, frá símtali við starfsmann barnaverndarnefndar og því sem þar hafi komið fram um samskipti barnaverndarnefndarinnar við móður barnanna.
Ráðuneytið beindi þeim tilmælum til Barnaverndarstofu og forstjóra hennar að hafa athugasemdir ráðuneytisins sem vörðuðu formlegan farveg mála í huga framvegis við úrlausn sambærilegra mála.
Kjartan og Kristín komast að þeirri niðurstöðu að ljóst sé að ráðuneytið hafði eingöngu lítinn hluta gagna málsins undir höndum þegar það setti fram athugasemdir sínar gagnvart forstjóra Barnaverndarstofu.
Ráðuneytinu hefði verið í lófa lagið að óska eftir gögnum frá barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar eða Barnaverndarstofu á grundvelli barnaverndarlaga en gerði það ekki.
Í umræddum gögnum má meðal annars finna tölvupóstsamskipti föðurafans og forstjóra Barnaverndarstofu, gögn sem varða málsmeðferð barnaverndarnefndar Hafnarfjarðar auk kvörtunar föðurins til Barnaverndarstofu og gögn sem varða skoðun Barnaverndarstofu af því tilefni.
Af framangreindu er einnig ljóst að ráðuneytið komst að niðurstöðu í málinu og gerði í kjölfarið athugasemdir við störf forstjóra Barnaverndarstofu vegna afskipta hans af tilteknu barnaverndarmáli, án þess að forstjóranum væri gefinn kostur á að kynna sér gögnin sem niðurstaðan var byggð á og tækifæri til þess að tjá sig um þau.
Í ljósi eðlis þeirrar niðurstöðu ráðuneytisins um að forstjórinn hafi farið út fyrir verksvið sitt og aðfinnslum ráðuneytisins við að forstjórinn hafi greint föðurafa barna frá samskiptum hans við starfsmann barnaverndar Hafnarfjarðar, og þar með óbeint að hann hafi ekki hagað athöfnum sínum í samræmi við lög, verður að telja að málsmeðferð ráðuneytisins hafi að þessu leyti ekki samræmst grundvallarreglum stjórnsýsluréttarins um andmælarétt, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga.