„Í duftið fyrir ráðherrum“

Björn Leví Gunnarsson sagði fjármálaátlunina ekki standast gæðakröfur laga um …
Björn Leví Gunnarsson sagði fjármálaátlunina ekki standast gæðakröfur laga um opinber fjármál. mbl.is/Eggert

„Engin sundurliðuð kostnaðaráætlun, illa skilgreind markmið, sama og engir mælikvarðar, spurningum ekki svarað, mjög takmörkuð umræða,“ sagði Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, í umræðum um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til 5 ára á Alþingi í dag.

Hann staðhæfði enn fremur að áætlunin stæðist ekki gæðakröfur í lögum um opinber fjármál og sagði að Píratar leggi það til að málinu verði vísað aftur til ríkisstjórnarinnar.

„Ólíkt stjórnarflokkunum sem leggjast algjörlega í duftið fyrir ráðherrum sínum og gera engar breytingar á 5 þúsund milljarða fjármálaáætlun sinni, leggur Samfylkingin til 10 tillögur að breytingum“ sagði Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar, og vísaði þar með í þær tillögur sem flokurinn kynnti á blaðamannafndi í gær.

Meirihlutinn sætti einnig gagnrýni af hálfu Ágústs Ólafar þar sem hann setti spurningamerki við það að meirilutinn hafði upphaflega viljað innheimta lægri veiðigjöld en gert hefur verið hingað til og ekki veitt meira fé til ýmissa málaflokka. „Af hverju eiga útgerðarmenn stuðning ykkar allann en ekki öryrkjar, aldraðir og barnafólk,“ sagði hann.

Forsætisráðherra svaraði gagnrýni

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstrihreyfingarinnar — græns framboðs, sagðist ánægð með fjármálaáætlunina „þar sem í henni er efnt það sem lofað var fyrir kosningar og blásið til sóknar. Sóknar í þeim málaflokkum sem skiptir þjóðinni mestu.“

Máli sínu til stuðnings vísaði Katrín til aukinna framlaga til heilbrigðismála, menntamála, samgöngumála og kjarabót fyrir örorkulífeyrisþega. Forsætisráðaherra lagði sérstaka áherslu á umhverfis- og náttúruverndarmál sem hún sagði fá mun meira vægi en áður.

Gagnrýni Björns Leví var einnig svarað. „Það vinnulag sem við höfum viðhaft við innleiðingu laga um opinber fjármál hefur verið lærdómsferli og það er áhugavert að lesa umsögn fjármálaráðs og halda áfram að læra af þessu vinnulagi frá ári til árs. Þar sjáum við að okkur hefur farið fram og okkur á eftir að fara fram í því að horfa til lengri tíma í ríkisfjármálum, en fyrst og fremst er það mikilvægt að hér er verið að blása til raunverulegrar sóknar eins og krafa hefur verið uppi í samfélaginu mörg undanfarin ár,“ sagði Katrín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka