Formenn stjórnmálaflokka sem eiga sæti á Alþingi náðu samkomulagi rétt fyrir miðnætti um þinglok. Frá þessu er greint í miðnæturfréttum RÚV. Ekki er ljóst hvenær þingstörfum lýkur nákvæmlega. Formenn flokkanna komu saman klukkan tíu í kvöld til að ræða þinglok.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra staðfesti við fjölmiðla í gær að hún teldi rétt að leggja til óbreytt veiðigjöld, en jafnframt að það væri gegn því að sátt næðist í öðrum atriðum er varða þinghald. Svo virðist sem tekist hafi að semja um þau atriði í kvöld.
Þingfundur hefur staðið yfir á Alþingi frá því klukkan hálfellefu í morgun og stendur enn yfir þar sem umræða um fjármálaáætlun 2019-2023 fer fram.