Mannréttindi fanga eru ekki tryggð vegna skorts á geðheilbrigðisþjónustu innan fangelsisstofnana landsins. Þetta kemur fram í svari dómsmálaráðuneytisins til umboðsmanns Alþingis. Ráðuneytinu hefur verið gert að koma með tillögur að úrbótum fyrir 15. september nk.
Í bréfi dómsmálaráðuneytisins til umboðsmanns Alþingis kemur fram að framkvæmd laga um fullnustu refsinga tryggi ekki réttindi fanga samkvæmt mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu með fullnægjandi hætti. Telur dómsmálaráðuneytið brýnt að endurskoða fyrirkomulag geðheilbrigðisþjónustu á Litla-Hrauni og í fangelsum landsins almennt.
Einn liður í frumkvæðisathugun umboðsmanns Alþingis á tilteknum atriðum á aðbúnaði og aðstæðum fanga, þá fyrst og fremst í fangelsinu Litla-Hrauni, var geðheilbrigðis- og sálfræðiþjónusta við fanga en settur umboðsmaður í athuguninni lýsti því árið 2013 í drögum að skýrslu að vistun geðsjúkra fanga í afplánunarfangelsi kynni að ganga nærri því að teljast brot á stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu.
Í svari dómsmálaráðuneytisins við athugun umboðsmanns kom fram að Fangelsismálastofnun hafi í minnisblaði til ráðuneytisins vakið athygli á stöðu nokkurra fanga í afplánun sem ekki höfðu fengið viðeigandi þjónustu í fangelsi og viðeigandi úrræði séu heldur ekki til staðar fyrir þá að afplánun lokinni.
Sagði í bréfinu að ljóst væri að mati ráðuneytisins að framkvæmd laga um fullnustu refsinga tryggði ekki réttindi fanga samkvæmt mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu og tæki undir sjónarmið sem sett hafa verið fram um að fangelsisvistun alvarlega geðsjúkra einstaklinga gengi nærri því að vera mannréttindabrot þar sem hann nyti ekki við viðeigandi læknisaðstoðar.
„Það er afstaða ráðuneytisins að brýnt tilefni sé til þess að endurskoða fyrirkomulag geðheilbrigðisþjónustu á Litla-Hrauni sem og í fangelsum landsins almennt. Ráðuneytið telur mikilvægt að viðhafa víðtækt samráð í þeim efnum við velferðarráðuneytið og fangelsismálayfirvöld,“ sagði í svarinu.
Umboðsmaður hefur óskað eftir upplýsingum um í hverju sú endurskoðun, og þar með þær nauðsynlegu úrbætur sem ráðuneytið telur brýnt að ráðast í, muni felast, t.d. hvort ráðuneytið hafi sett sér aðgerða- og tímaáætlanir vegna þessara mála, hver verði fyrstu viðbrögð ráðuneytisins til að rétta það ástand sem það lýsir óviðunandi, hvenær þeim verði hrundið í framkvæmd og ef þörf er á sérstöku fjármagni til þess hvaða ráðstafanir hafi þá verið gerðar í þeirri viðleitni að tryggja nægilegt fjármagn til umbótanna. Ráðuneytið hefur frest til 15. september nk. til þess að svara.