41 kynferðisbrot á Suðurlandi

51 heimilisofbeldismál kom inn á borð lögreglunnar á Suðurlandi í …
51 heimilisofbeldismál kom inn á borð lögreglunnar á Suðurlandi í fyrra. mbl.is/G.Rúnar

41 kynferðisbrotamál kom inn á borð lögreglunnar á Suðurlandi í fyrra. 2016 voru kynferðisbrotin 23 og 27 árið á undan. „Það sem af er þessu ári eru kynferðisbrotin orðin 11,“ sem er svo sem ekki yfirþyrmandi fjöld, en þetta eru þó öll þung mál,“ segir Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi.

„Síðan vorum við með 51 heimilisofbeldismál á öllu árinu í fyrra,“ bætir hann við. 2016 komu 40 heimilisofbeldismál í inn á borð lögreglu í umdæminu og 2015 voru þau 44 talsins. „Þetta eru allt mál sem kalla á að þeim sé sinnt strax,“ segir Oddur.

Kynferðisbrot og heimilisofbeldi eru mál sem krefjast þess að þeim sé sinnt af rannsóknarlögreglumönnum, en fimm slíkir starfa í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi. „Í heimilisofbeldismálum, þar sem kemur til nálgunarbanns og brottvísunar af heimili, þá er þetta mikið álag á ákærusvið líka,“ segir Oddur og útskýrir að alltaf þurfi að staðfesta úrskurði um nálgunarbann og brottvísun fyrir dómi.

„Það hefur verið giskað á að samanlagður fjöldi vinnustunda í heimilisofbeldismálum sé að jafnaði 120-160 tímar í hverju máli. Þá er ég að tala um vinnu almennra lögreglumanna, rannsóknarlögreglu og ákærusviðs,“ segir hann. „Þessi mál, slysin og svo umfangsmikil rannsókn á manndrápi hafa því lagst á okkur.“

Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi, segir kynferðisbrot og heimilisofbeldi vera …
Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi, segir kynferðisbrot og heimilisofbeldi vera mál sem krefjast þess að þeim sé sinnt strax. Sigurður Bogi Sævarsson

Þyrftu að vera sjö

Mikið álag á lögregluna á Suðurlandi hefur verið töluvert í umræðunni undanfarið í kjölfar þess að fjögur banaslys urðu í umdæminu á innan við viku í lok síðasta mánaðar. Síðan þá hefur einn ferðamaður látist í Reynisfjöru, annar slasaðist alvarlega við Gullfoss og sá þriðji fótbrotnaði við Geysi í vikubyrjun.

Oddur segir álagið á rannsóknarlögreglumennina fimm vera mikið. „Þeir koma að öllum þessum málum,“ segir hann og vísar til þess að rannsóknarlögreglumenn þurfi að koma að slysarannsóknum, kynferðisbrotum, heimilisofbeldi og manndrápsmálum.

Spurður hvort þörf sé að fjölga lögreglumönnum á rannsóknarsviði segir hann svo vera. „Við þurfum að fjölga þar um alla vegna tvo og það er bara rétt til þess að halda í við það sem er að gerast í dag. Ef við ætluðum síðan að fara af stað í einhverja frumkvæðisvinnu, þá þyrfti þeim að fjölga enn frekar.“

Embættið fékk úthlutað einu stöðugildi til viðbótar er Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra kynnti auknar framlögur til rannsókna á kynferðisbrotum í vetur og mun rannsóknarlögreglumönnum því fjölga í sex. „Við hefðum þó vilja fá meira,“ segir Oddur og kveðst ekki vita hvort að hann get i gert sér von um sjöunda manninn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert