Þingflokkur Pírata telur að velferðarráðuneytið sé ekki réttur aðili til þess að rannsaka samskipti Barnaverndarstofu og barnaverndarnefnda á höfuðborgarsvæðinu. Píratar draga í efa hæfi ráðuneytisins. Þetta er meðal þess sem kemur fram í yfirlýsingu sem þingflokkur Pírata sendi frá sér síðdegis í gær.
„Fyrir liggur niðurstaða úttektar á málsmeðferð og efnislegri athugun velferðarráðuneytisins í kjölfar kvartana barnaverndarnefnda í Reykjavík, Hafnarfirði og Kópavogi vegna Barnaverndarstofu og forstjóra hennar. Af henni má draga þá ályktun að velferðarráðuneytið hafi látið hagsmuni barna mæta afgangi og ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni, líkt og lög kveða á um, þrátt fyrir ítrekaðar kvartanir frá barnaverndarnefndum á starfsháttum forstjóra Barnaverndarstofu.
Lagst var í umrædda úttektarvinnu með hraði er málið var til umfjöllunar velferðarnefndar Alþingis. Lítill áhugi virtist á málinu þar til það vakti athygli almennings. Þá fyrst tók framkvæmdavaldið við sér. Þingflokkur Pírata þakkar þeim Kjartani Bjarna Björgvinssyni og Kristínu Benediktsdóttur fyrir vel unnin störf. Þingflokkur Pírata sér og kann að meta metnað þeirra til að leysa verkefnið vel af hendi þrátt fyrir að annað verði sagt um vilja framkvæmdavaldsins.
Þingflokkur Pírata fagnar því að velferðarráðuneytið hyggst endurskoða innri verkferla og verklag við rannsóknir sem þessar eins og sjá má á tilkynningu ráðuneytisins frá því í gær [föstudag]. Þingflokkur Pírata telur velferðarráðuneytið þó ekki vera réttan aðila til þess að taka aftur upp rannsókn á samskiptum Barnaverndarstofu og barnaverndarnefnda Reykjavíkur, Kópavogs og Hafnarfjarðar þar sem draga má í efa hæfi ráðuneytisins til að sinna rannsóknarskyldu sinni af kostgæfni. Þar til úrbætur innan ráðuneytisins hafa sannarlega átt sér stað.
Fullyrt var í upphafi að um óháða úttekt væri að ræða sem tæki til málsmeðferðar Barnaverndarstofu, barnaverndarnefnda og ráðuneytisins í tilteknum barnaverndarmálum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu forsætisráðuneytisins 2. maí síðastliðinn. Síðar var það hlutverk þrengt án þess að greint væri frá opinberlega og tekur því úttektin aðeins til stjórnsýslu ráðuneytisins. Í úttektinni má finna útlistun á samskiptum barnaverndarnefnda og Barnaverndarstofu. Úttektin leiðir í ljós að ráðuneytið sinnti ekki skyldum sínum þrátt fyrir ábendingar um að stjórnsýsla barnaverndarmála sé ekki eins á verður kosið.
Þingflokkur Pírata harmar hversu lítinn vilja virðist að finna hjá framkvæmdavaldinu til naflaskoðunar sem leitt gæti til raunverulegra umbóta í málaflokknum en leggja þess í stað allan kraft í að sópa málinu undir teppi. Þar eru pólitískir hagsmunir settir ofar hag barna. Hér hefur samtrygging stjórnmálanna verið sett ofar góðri og heiðarlegri stjórnsýslu.
Fram kemur í úttektinni, og reyndar áður, að forstjóri Barnaverndarstofu hafi um árabil haft bein afskipti af einstaka málum með óformlegum símtölum. Bragi hafi þannig veitt fyrirmæli um einstaka mál án þess að hafa uppfyllt ákvæði barnaverndarlaga þar sem kveðið er á um með hvaða hætti eftirliti Barnaverndarstofu skal háttað. Það vekur furðu að ráðuneytið hafi ekki sinnt eftirliti sínu með faglegri hætti þrátt fyrir þessa vitneskju. Þá er enn ósvarað hvers vegna félags- og jafnréttismálaráðherra valdi að halda þessum þætti málsins frá Alþingi sem hefur eftirlitsskyldu með störfum hans.
Spurningum um réttmæti framboðs forstjóra Barnaverndarstofu til Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna er enn ósvarað. Þingflokkur Pírata furðar sig á yfirlýsingum forsætisráðherra vegna málsins í Stundinni þann 27. apríl síðastliðinn þar sem ráðherra segir: „Engin gögn um efnislegar niðurstöður velferðarráðuneytisins í kvörtunarmálum barnaverndarnefnda gegn Barnaverndarstofu voru lögð fyrir ríkisstjórn Íslands þann 23. febrúar þegar samþykkt var að bjóða Braga Guðbrandsson fram til Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna fyrir Ísland hönd.“ Í niðurstöðu úttektaraðila vegna málsins segir þvert á móti að félags- og jafnréttismálaráðherra hafi ritað „minnisblað til ríkisstjórnar Íslands 13. desember 2017 þar sem farið var yfir kvartanir barnaverndarnefndanna þriggja og upplýst um meðferð málsins.“ Þetta ósamræmi þarfnast skýringa.
Úttektin tekur þannig ekki efnislega afstöðu til starfshátta Braga Guðbrandssonar eins og leiða mátti líkur að þegar úttektin var boðuð á vef forsætisráðuneytisins þann 2. maí heldur snýr einvörðungu að meðhöndlun velferðarráðuneytisins á kvörtunum barnaverndarnefndanna gagnvart Braga Guðbrandssyni.
Niðurstaða úttektaraðila er að ekki sé hægt að slá því föstu að Bragi hafi farið út fyrir verksvið sitt með því að hafa afskipti af einstaka barnaverndarmálum. Ekki er heldur hægt að meta hvort hann hafi brotið gegn þagnarskyldu sinni í samskiptum við föður eins málsaðila. Mat úttektaraðila liggur á þá leið að ráðuneytið hafi ekki upplýst málsatvik nægilega vel til þess að geta tekið ákvörðun um lögmæti embættisfærslna Braga. Ráðuneytið hafi hvorki virt rannsóknarregluna né andmælaregluna við meðferð málsins.
Ljóst er að enn er mörgum spurningum ósvarað. Þingflokkur Pírata mun halda áfram að veita framkvæmdavaldinu virkt aðhald í þessu máli eins og öðrum,“ segir í yfirlýsingu frá þingflokki Pírata.