Tvisvar kallað á sjúkrabíl í sama leik

mbl.is/Eggert

Tvisvar var kallað eftir aðstoð lækna og sjúkrabíl á knattspyrnuleik þriðja flokks karla á Hellissandi í dag. Í báðum tilfellum voru leikmenn fluttir til aðhlynningar á Landspítalann í Reykjavík.

Freydís Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri Snæfellsness, segir í samtali við mbl.is að fyrsta atvikið hafi verið þegar tveir leikmenn lentu í samstuði. Var sjúkrabíll kallaður til og var á leiðinni í burtu þegar hitt óhappið varð og var bílnum þá snúið við.

Hafði einn leikmaðurinn þá hlaupið og stoppað bolta við endalínuna en ekki vildi betur til en að honum tókst ekki að stoppa sjálfur og tók 2-3 skref upp smá halla við endalínuna og fór út fyrir völlinn. Stæði vallarins er í hrauni og endaði leikmaðurinn því í hrauninu þar sem hann rak höfuðið utan í grjót.

Segir Freydís að læknir í bílnum sem þegar var farinn af stað hafi komið til baka og sinnt aðhlynningu þangað til annar sjúkrabíll kom á staðinn. Var þyrla Landhelgisgæslunnar kölluð út vegna seinna slyssins og flutti hún manninn suður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert