Einstakt tækifæri fyrir Ísland

Berglind Ásgeirsdóttir, sendiherra Íslands í Moskvu, ásamt Finnboga Jónssyni og …
Berglind Ásgeirsdóttir, sendiherra Íslands í Moskvu, ásamt Finnboga Jónssyni og Ásgeiri Flygenring. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta verður mikil stemning og einstakt tækifæri fyrir Ísland á öllum sviðum,“ segir Berglind Ásgeirsdóttir, sendiherra Íslands í Rússlandi, um heimsmeistaramótið í knattspyrnu sem hefst á fimmtudaginn í samtali við fréttastofu mbl.is. Hún er bjartsýn á gott gengi íslenska liðsins í keppninni.

Hún segir engan vafa á að þáttaka íslenska liðsins á mótinu muni koma Íslandi enn frekar á heimskortið. Sendiráðinu hafa borist fjölmargar fyrirspurnir frá erlendum fjölmiðlum, bæði rússneskum og öðrum, varðandi íslenska liðið og öllu sem við kemur Íslandi.

Til stendur að nýta þá athygli sem þátttaka íslenska liðsins hefur í för með sér og mun utanríkisþjónustan í samstarfi við Íslandsstofu og menntamálaráðuneytið standa fyrir kynningu á landi og þjóð meðal annars með menningarviðburðum og kynningarbás.

Berglind var sendiherra Íslands í Frakklandi á meðan evrópumótið í knattspyrnu stóð yfir fyrir tveimur árum og segir undirbúninginn fyrir mótið í Rússlandi miklu meiri af hálfu sendiráðsins núna.

Hún rifjar upp að fyrirfram hafi enginn búist við þeim fjölda Íslendinga sem lögðu leið sína til Frakklands. Hún segir starfsfólk sendiráðsins meðvitaðra núna um þær aðstæður sem geta komið upp og sé betur í stakk búið til að takast á við þær.

Frá leikvangi Spartak Moskvu þar sem niðurtalning að leik Íslands …
Frá leikvangi Spartak Moskvu þar sem niðurtalning að leik Íslands og Argentínu hófst í dag. Ljómynd/Aðsend

Atriði sem þarf að hafa í huga

Sendiráðið verður með neyðarnúmer opið ef upp koma aðstæður þar sem fólk þarf að leita aðstoðar og starfsfólk á vegum sendiráðsins verður á öllum þremur leikstöðum Íslands til að veita upplýsingar og aðstoð.

Ferðalangar þurfa þó að hafa ýmis atriði í huga þegar ferðast er til Rússlands enda er um framandi land að ræða fyrir marga sem hafa aldrei komið þangað áður.

Í fyrsta lagi þarf fólk að hafa stuðningsmannaskírteini (Fan ID) á sér öllum stundum. Það gildir sem vegabréfáritun og skilríki. „Best er að hengja þau framan á sig og vera með þau allstaðar,“ segir Berglind. Hún mælir þó með því að hafa vegabréf með sér líka.

Einnig segir Berglind mikilvægt að fólk að verða sér úti um sjúkratryggingu fyrir ferðalagið ef það skildi veikjast eða slasast. Evrópsk sjúkraskírteini gildi ekki í Rússlandi og það sé nauðsynlegt að hafa tryggingu ef illa fer.

Þá bendir hún á að öruggast sé að kaupa vatn í flöskum og sleppa því að drekka vatn úr krönum. Þetta er í samræmi við ráðleggingar sóttvarnalæknis vegna ferða Íslendinga á heimsmeistaramótið í Rússlandi sem mbl.is hefur greint frá.

Berglind hvetur fólk til að mæta snemma á leikstaði enda sé öryggið í kring um leikvangana líkt og á flugvöllum sem getur verið tímafrekt.

Áhersla á öryggi og samgöngur

Mikið samgönguátak hefur átt sér stað í Rússlandi í undanfara mótsins að sögn Berglindar. Neðanjarðarlestir ganga með örstuttu millibili, gangstéttir hafa verið breikkaðar og þá eru komin hjól út um alla Moskvu-borg sem hægt verður að leigja.

Einnig hafi nýr alþjóðaflugvöllur verið byggður í Rostov fyrir mótið.

„Ég held að það sé allt gert til að undirbúa að þetta geti farið vel fram. Áherslan er á öryggið,“ segir Berglind um viðbúnaðinn í Rússlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert