Samþykkt var á Alþingi í kvöld að leggja kjararáð niður. Greiddu 48 þingmenn atkvæði með tillögunni, en 14 þingmenn sátu hjá. Þeirra á meðal voru þingmenn Pírata. Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, sagði í þriðju umræðu um kjararáð í kvöld að málið væri seint inn komið og skort hefði á umræðu um það í nefndinni. Því myndu Píratar ekki greiða atkvæði.
Lögin um kjararáð falla því úr gildi 1. júlí næstkomandi.
Í greinargerð með frumvarpinu sem meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar sendi frá sér í lok síðasta mánaðar kom fram að ríkisstjórnin hafi í janúar, að höfðu samráði við heildarsamtök á vinnumarkaði, ákveðið að skipa starfshóp um málefni kjararáðs. Átti hann að bera saman fyrirkomulag um ákvörðun launa hjá kjörnum fulltrúum, dómurum og embættismönnum í nágrannalöndum og leggja fram tillögur um breytingar.
Hópurinn skilaði skýrslu í febrúar en þar er að finna samanburð við nágrannalönd og tillögur að breyttu fyrirkomulagi og úrbótum.
Þar kemur fram að launaákvarðanir kjararáðs hafi ítrekað skapa ósætti og leitt til óróa á vinnumarkaði. Skort hafi gagnsæi um launaákvarðanir og raunveruleg laun. Bent er á að í nágrannalöndum séu ákvarðarnir um laun kjörinna fulltrúa nánast undantekningarlaust teknar einu sinni á ári. Endurskoðun fylgi skilgreindri launaþróun næstliðins árs.