Fjögur tilboð bárust í gatnaframkvæmdir og jarðvinnu við nýjan meðferðarkjarna Landspítalans við Hringbraut. Þrjú tilboðanna voru undir kostnaðaráætlun, sem hljóðar upp á rúma 3,4 milljarða króna, en tilboðin voru opnuð hjá Ríkiskaupum í dag.
Íslenskir aðalverktakar hf. áttu lægsta tilboðið, en það hljóðar upp á rúmar 2.843 milljónir, sem eru um 83,4% af kostnaðaráætlun. Tilboð Ístaks hf., sem var næstlægst, var 3.042 milljónir, eða 89,2% af kostnaðaráætlun, og tilboð Munck Íslandi var tæpar 3.148 milljónir, eða 92,3% af kostnaðaráætlun.
Hæsta tilboðið áttu Loftorka Reykjavík hf. og Suðurverk, en tilboð þeirra hljóðaði upp á tæpa 3,8 milljarða króna, eða 111,4% af kostnaðaráætlun, samkvæmt fréttatilkynningu frá Nýjum Landspítala.
Í tilkynningunni segir jafnframt að unnið sé að hönnun meðferðarkjarnans, sem er stærsta byggingin í Hringbrautarverkefninu, eða 66.000 fermetrar. Sú hönnun er í höndum Corpus-hópsins, en Spital-hópurinn sér um gatna-, veitna- og lóðahönnun.
Stefnt er að því að byggingu nýs þjóðarsjúkrahúss við Hringbraut verði lokið árið 2024 í samræmi við fjármálaáætlun 2019-2023.