Þinglok í uppnámi

Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Miðflokksins, var einn þeirra sem telur …
Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Miðflokksins, var einn þeirra sem telur að vegið sé að meðferð tillögu flokksins um verðtryggingu. mbl.is/Eggert

Þingstörf virðast hafa komið í uppnám eftir að deilur urðu á Alþingi um meðferð frumvarps Miðflokksins um að taka húsnæðislið úr vísitölu til verðtryggingar, en meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar hefur lagt til að málinu verði vísað til úrvinnslu í starfshópi.

Þingmenn Miðflokksins saka meirihlutann um að svíkja samkomulag formanna flokkanna um meðferð mála sem voru sett á dagskrá sem hluti af samningi um þinglok. Gert var ráð fyrir að þingstörfum myndi ljúka í dag, en engin þeirr mála sem átti að afgreiða í dag hafa verið afgreidd frá því þingfundur hófst klukkan 13:30 í dag.

„Nú sjáum við svik á ný,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, í ræðustól Alþingis í dag, en hann var að vísa til þess að lögð hafði verið fram frávísunartillaga vegna frumvarps Miðflokksins um að fella húsnæðislið úr vísitölu sem verðtrygging byggir á.

Í sátt við alla nema Miðflokkinn

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði ótrúlegt að heyra málflutning Sigmundar Davíðs. „Það sem var rætt um milli formanna flokkana var að hér myndi eitt mál frá hverjum þingflokki hljóta afgreiðslu í sal. Það var líka ljóst að kynni að koma fram málsmeðferðartillögur eins og kom fram um tillögu Pírata um borgaralaun, þar sem því máli var vísað til ríkisstjórnar,“ sagði hún.

Þingmaður Miðflokksins, Bergþór Ólason, sakaði meirihlutann að vinna gegn flokki hans, en hann sagði öll mál stjórnarandstöðunnar hafa fengið málsmeðferð í sátt við þá flokka sem að tillögunum standa, nema í tilfelli tillögu Miðflokksins.

Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokks, nefndi að frávísunartillagan hafi verið rökstudd og og rædd í nefnd á föstudag síðastliðinn. Hann benti á að Miðflokkurinn hafi vitað af málinu í fjóra daga, en ekkert aðhafst nema með upphlaupi á lokadegi þings.

Óli Björn sagði þingmenn Miðflokksins frekar vilja að málið yrði fellt í atkvæðagreiðslu heldur en að vísa málinu til starfshóps sem myndi vinna áfram með málið. „Um það snýst afgreiðsla meirihluta efnahags- og viðskiptanefndar og skiptir engu máli hversu oft háttvirtur þingmaður Þorsteinn Sæmundsson eða aðrir berja hausnum við steininn,“ sagði hann.

Kergja út í Framsóknarflokkinn

„Ætlum við að taka þátt í þessu leikriti Miðflokksins sem byggist fyrst og fremst og nánast eingöngu á kergju út í fyrrum samstarfsfólk sitt í Framsóknarflokknum?“ spurði Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs.

„Nú er hér einn flokkur stjórnarandstöðunnar á því að á sér hafi verið brotið og hvernig ætlar hann að bregðast við, jú með því að telja að þá gildi ekki lengur umrætt samkomulag og það er kannski það sem þessir stjórnarþingmenn hafa verið að kalla eftir. Það eru engir bundnir, engir að hlutast til um neitt. Þannig að þetta er komið í algjöra vitleysu, algjöra hringavitleysu,“ sagði Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar.

Hún hvatti einnig forseta þingsins til þess að stöðva fund og til þess að ræða úrlausn mála. „Við erum komin í öngstræti með þetta,“ sagði Hanna Katrín.

Fáum ræðum seinna var gert hlé á þinghaldi og standa fundir yfir á meðan verið er að finna lausn á stöðu mála. Þingfundur hófst að nýju klukkan 14:55, en ekki er ljóst hvert framhaldið verður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka