Nýr meirihluti í borginni ætlar að hraða uppbyggingu íbúðahúsnæðis, vinna áfram að Borgarlínu, ráðast í aðgerðaáætlun gegn fátækt, fækka fagráðum og nefndum og gera Laugaveginn að göngugötu allt árið.
Þetta kemur fram í sáttmála Samfylkingarinnar, Vinstri grænna, Viðreisnar og Pírata.
Markvissar aðgerðir eru boðaðar í húsnæðismálum og hraðari uppbygging íbúðarhúsnæðis. Þetta verður eitt stærsta verkefni kjörtímabilsins, samkvæmt sáttmálanum.
Fjölga skal félagslegum íbúðum í eigu borgarinnar um 500 á kjörtímabilinu og endurskoða reglur um húsnæðisstuðning.
Áfram verður unnið að Borgarlínu, skipulagsvinnu vegna fyrsta áfanga hennar lokið og framkvæmdir hafnar. Samningum verði náð við ríkið um Borgarlínu og aðrar fjárfestingar til að létta á umferðinni og breyta ferðavenjum.
Rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar verður tryggt meðan unnið er að undirbúningi nýs flugvallar í nágrenni borgarinnar, að því er segir í sáttmálanum. Aðalskipulagi Vatnsmýrar verði breytt og lokun flugvallarins seinkað þegar samningar hafa náðst við ríkið um Borgarlínu sem styður við uppbyggingu á Ártúnshöfða, í Elliðaárvogi, á Keldum og í Keldnaholti.
Tíðni á helstu stofnleiðum Strætó verður aukin í 7,5 mínútur á háannatímum og ný bílastæðastefna verður samþykkt. Gjaldskyld svæði verða stækkuð og gjaldskyldutími lengdur.
Uppbyggingu hjólastíga verður hraðað og skoðað verður að leggja sérstakar hjólahraðbrautir. Unnið verður gegn svifryki og dregið úr notkun plasts og einnota umbúða.
Unnið verði markvisst gegn öllu ofbeldi og margþættri mismunun og einelti í borginni. Unnið verði gegn einangrun fólks og sárri fátækt með markvissum og valdeflandi hætti. Ný aðgerðaáætlun verður unnin og sett í forgang.
Reynt verður að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla með fjölgun ungbarnadeilda og byggingu nýrra leikskóla, auk þess að skoða aðgerðir til að fjölga dagforeldrum.
Í tilraunskyni verði einn leikskóli í hverju hverfi opinn yfir sumartímann til tryggja að fjölskyldur hafi meiri sveigjanleika um hvenær þær fara í frí.
Frá og með áramótum 2019 skulu barnafjölskyldur einungis borga námsgjald fyrir eitt barn, þvert á skólastig. Frá og með áramótum 2021 skulu barnafjölskyldur mest greiða fæðisgjöld fyrir tvö börn, þvert á skólastig.
Mannréttindaráð og stjórnkerfis- og lýðræðisráð verða sameinuð í nýtt Mannréttinda- og lýðræðisráð. Menningar- og ferðamálaráð og Íþrótta- og tómstundaráð verða sameinuð í Menningar-, íþrótta- og tómstundaráð. Ferðamálin munu heyra undir borgarráð, líkt og atvinnuþróun og atvinnumál.
Hvað fjármál og rekstur varðar vill Reykjavíkurborg hefja samtal við ríkið um tekjustofna sveitarfélaga, að gistináttagjald renni til sveitarfélaga og um endurskoðun jöfnunarsjóðs sveitarfélaga í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga.
Útsvar skal haldast óbreytt. Fasteignaskattar á atvinnuhúsnæði verði lækkaðir úr 1,65% í 1,60% fyrir lok kjörtímabilsins.
Einnig kemur fram að ljúka þurfi opnun bókhalds á kjörtímabilinu og að eyða þurfi launamun kynjanna hjá starfsfólki borgarinnar.
Tryggja skal aðgengi allra kynja að þjónustu borgarinnar og uppfæra skal eyðublöð svo að þau geri ráð fyrir öllum kynjum.
Gera skal úttekt á klefa- og salernisaðstæðum og tillögur til úrbóta þar sem við á til að gefa öllum rými í opinberum byggingum eins og skólum, sundlaugum og íþróttahúsum.