Greiðslur Deutsche bank til Kaupþings og tveggja eignarhaldsfélaga upp á 400 milljónir evra, eða sem nemur um 50 milljörðum íslenskra króna, í árslok 2016 í tengslum við CLN-viðskipti voru ekki samningsbundnar greiðslur. Þetta kom fram við fyrirtöku Chesterfields-málsins (einnig nefnt CLN-málið) í héraðsdómi í gær.
CLN-málið er nú í annað skipti fyrir héraðsdómi, en áður voru þrír fyrrverandi stjórnendur Kaupþings sýknaðir í héraði. Hæstiréttur ómerkti þó fyrri dóminn og vísaði málinu aftur í hérað eftir að upplýsingar komu fram um fyrrnefndar greiðslur Deutsche bank. Áður en greint var frá greiðslunum í fjölmiðlum höfðu hvorki ákæruvaldið né sakborningar vitneskju um þær.
Um miðjan maí lagði Björn Þorvaldsson, saksóknari í málinu, fram ný gögn í málinu og fengu verjendur einn mánuð til að kynna sér þau. Í fyrirtökunni í gær lögðu verjendur fram bókun þar sem spurt var hvort ákæruvaldið hefði leitað skýringa stjórnenda Deutsche bank á greiðslunum og svo hvort gögnin sem nú hefðu verið lögð fram væru tæmandi.
Í samtali við mbl.is segir Björn að hann hafi svarað þessu á þá leið að ákæruvaldið hafi leitað til lögmanns bankans sem hafi svarað með leyfi Deutsche bank. Sagði Björn að í stuttu máli hefðu svör hans verið á þá leið að ekki væri um samningsbundnar greiðslur að ræða.
Var málinu í kjölfarið frestað í tvær vikur, eða til 28. júní þegar næsta fyrirtaka fer fram. Gera má ráð fyrir að aðalmeðferð, í annað skiptið, fari ekki fram fyrr en í fyrsta lagi í haust.