Meiri mannekla og lengri sumarlokanir

Landspítali við Hringbraut.
Landspítali við Hringbraut. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Sum­ar­lok­an­ir á Land­spít­ala verða tals­vert lengri í ár en í fyrra, eða allt að tveim­ur til þrem­ur vik­um lengri, að sögn Önnu Sigrún­ar Bald­urs­dótt­ur, aðstoðar­manns for­stjóra Land­spít­al­ans. Speg­ill­inn á RÚV greindi fyrst frá.

„Þetta flæk­ist hvert árið sem líður,“ seg­ir Anna Sigrún, og staðfest­ir að auk­inni mann­eklu sé um að kenna. Þörf­in fyr­ir þjón­ustu eykst, meðal ann­ars vegna öldrun­ar þjóðar­inn­ar og fjölg­un­ar ferðamanna. Á sama tíma fækk­ar hjúkr­un­ar­fræðing­um.

Þó svo að lok­an­irn­ar verði lengri en í fyrra hef­ur tek­ist að halda svipuðu róli bæði á öldrun­ar- og geðdeild, auk þess sem fleiri rými verða opin yfir há­sum­arið en á síðasta ári. Al­var­leg­asta birt­ing­ar­mynd ástands­ins er nauðsyn þess að loka hjarta­gátt­inni í heil­an mánuð í sum­ar, en þar eru einkar sér­hæfðir hjúkr­un­ar­fræðing­ar og því þarf að grípa til þess að færa bráðastarf­sem­ina á bráðamót­tök­una í Foss­vogi.

„Um 80% rýma verða opin þegar mest er um lok­an­ir. Við for­gangs­röðum verk­efn­um og því bráðara sem vanda­málið er, því ör­ugg­ari erum við um að sinna því. Við sinn­um hjarta­stoppi áður en við sinn­um bein­broti.“

Anna Sigrún seg­ir for­gangs­röðun­ina í sum­ar kunna að verða þung­bæra fyr­ir þá sem leita á bráðamót­töku, en ít­rek­ar að þau vísi eng­um frá og að mik­il­vægt sé að fólk haldi ekki að það megi ekki leita til þeirra þó mikið sé að gera. „Þó að það sé mikið að gera hjá okk­ur þá að sjálf­sögðu sinn­um við bráðveiku fólki, til þess erum við og það mun­um við gera. Það er miklu verra ef það kem­ur ekki. Við met­um alla og bein­um þeim annað ef þeir þurfa ekki okk­ar þjón­ustu.“

„Sum­arið verður okk­ur mjög þungt, það ligg­ur fyr­ir að þetta verður erfitt. Við get­um ekki annað gert en að standa sam­an, það er ekk­ert annað að gera. Þetta verður að ganga.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert