Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi á þriðjudag karlmann í þriggja mánaða fangelsi fyrir að hafa tekið ljósmynd af fyrrverandi sambýliskonu sinni sofandi ásamt öðrum karlmanni og dreift henni til þriggja annarra einstaklinga á Facebook.
Er maðurinn sakfelldur fyrir stórfelldar ærumeiðingar í garð konunnar, en í ákæru málsins kemur fram að hann hafi tekið ljósmynd á síma sinn af konunni hálfnakinni og karlmanninum nöktum þar sem þau lágu sofandi í rúmi. Sendi hann myndina í kjölfarið á þrjá aðra einstaklinga. Er hann sagður með háttsemi sinni hafa móðgað og smánað konuna auk þess að særa blygðunarsemi hennar.
Fann konan minnislykla með myndunum sem m.a. eru sagðar sýna hana og sambýlismanninn fyrrverandi í samförum. Maðurinn játaði hjá lögreglu og fyrir dómi að hafa tekið myndir af konunni, en sagði hana hafi vitað af myndatökunum og verið þeim samþykk. Konan hefur hins vegar neitað því og var það mat dómsins að hún hafi ekki vitað af myndatökunum, enda styðji framburðir vitna sem voru hjá henni skömmu eftir að hún fann minnislyklana, þann framburð hennar. Þykir því sannað að ákærði tók myndirnar án vitneskju hennar.
Dómurinn er skilorðsbundinn, en manninum er einnig gert að greiða konunni 400.000 kr. í miskabætur, auk greiðslu lögmannsþóknunar og málskostnaðar.