Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, segir að staða Páls Magnússonar sem þingmanns flokksins í Suðurkjördæmi sé óbreytt, eftir að honum var vikið úr fulltrúaráði Sjálfstæðisfélagsins í Vestmannaeyjum í gærkvöldi.
„Flokksfélög og fulltrúaráð í einstökum sveitarfélögum eru auðvitað sjálfstæð um sínar ákvarðanir og það er misjafnt hvort það er sérstaklega tilgreint í reglum þessara stofnana flokksins hvort þingmenn eigi þar sæti eða ekki,“ segir Birgir í samtali við mbl.is.
Hann bætir því hins vegar við að það sé skýrt að þingmenn séu sjálfkjörnir í kjördæmisráð og flokksráð sem starfar fyrir landið allt.
Fulltrúaráðið í Vestmannaeyjum lýsti í gærkvöldi yfir fullu vantrausti á Pál vegna „fordæmalausrar framgöngu“ hans í aðdraganda nýliðinna sveitarstjórnarkosninga og segir í ályktun fundarins að ráðið geti ekki litið á þingmanninn sem trúnaðarmann Sjálfstæðisflokksins.
„Þeir sem að þessari samþykkt standa velja auðvitað þau orð sem þeir vilja og það er auðvitað ljóst að þarna hefur hlaupið mikil harka í málin. En hin formlega staða hefur ekki með neinum hætti breyst,“ segir Birgir og bætir við að ákvarðanir eða átök af þessu tagi sem eigi sér stað á vettvangi einstakra sveitarfélaga hafi ekki áhrif á stöðu þingmanna á kjördæmisvísu eða landsvísu.
„Staða þingmanns Sjálfstæðisflokksins er auðvitað óbreytt en þegar átök verða og ágreiningur kemur upp þá þurfa menn sem vinna saman í flokki auðvitað að tala saman,“ segir Birgir Ármannsson.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir í Fréttablaðinu í dag að hann ætli að ræða þetta mál við sitt fólk, en mbl.is hefur ekki náð í formanninn í morgun, né heldur Pál Magnússon, þingmann Suðurkjördæmis.