Dómur mildaður og sýkna í skattalagabroti

Landsréttur.
Landsréttur. mbl.is/Hjörtur

Landsréttur hefur mildað dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í máli fyrrverandi eiganda netverslananna buy.is og bestbuy.is, Friðjóns Björgvins Guðjónssonar, fallið frá einum ákærulið og lækkað sektarupphæð. Friðjón var í héraðsdómi dæmdur til tveggja ára og sex mánaða fangelsis og til þess að greiða 307,6 milljónir í sekt, en Landsréttur gerir Friðjóni að sæta fangelsi í 18 mánuði og borga 258 milljónir króna í sekt.

Líkt og í dómi héraðsdóms ber Friðjóni að greiða sektarupphæðina innan fjögurra vikna frá uppsögu dóms, ella sæti hann fangelsi í 12 mánuði. Þá segir í dómi Landsréttar að fresta skuli til fullnustu 15 mánuðum af refsivistinni og falli sá hluti niður að liðnum þremur árum haldi ákærði skilorði.

Landsréttur sýknaði eiginkonu Friðjóns af refsikröfu vegna peningaþvættis vegna fyrningar brota hennar, en hún var ákærð fyrir að hafa veitt viðtöku 11,5 milljónum á bankareikning sinn.

Þá vísaði Landsréttur frá héraðsdómi ákæru á hendur Friðjóni fyrir að skila efnislega röngum skattframtölum og að láta undir höfuð leggjast að skila tekjuskatti og útsvari þar sem skattayfirvöld höfðu þegar gert honum að greiða álag á vantalinn skattstofn vegna sömu brota. Segir í dómi Landsréttar að hin tvíþætta málsmeðferð brjóti í bága við mannréttindasáttmála Evrópu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert