Handtekinn á þaki Stjórnarráðsins

Slökkviliðið kom á staðinn á körfubíl til að taka niður …
Slökkviliðið kom á staðinn á körfubíl til að taka niður tyrkneska fánann og setti þann íslenska aftur á sinn stað. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lögregla handtók í dag mann á þaki Stjórnarráðsins en talið er að maðurinn hafi tekið þátt í gjörningi aðgerðarhópsins „Hvar er Haukur“ sem fólst í því að skipta út íslenska fánanum fyrir tyrkneska fánann á þaki Stjórnarráðsins.

Viðbúnaður var við Stjórnarráðið vegna atviksins.
Viðbúnaður var við Stjórnarráðið vegna atviksins. mbl.is/Valli

Í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að maðurinn sé um þrítugt. Hann var handtekinn mótþróalaust á tólfta tímanum í morgun og var færður á lögreglustöð þar sem hann bíður nú yfirheyrslu.

Tyrkneski fáninn blakti tímabundið yfir Stjórnarráðinu í miðborg Reykjavíkur í …
Tyrkneski fáninn blakti tímabundið yfir Stjórnarráðinu í miðborg Reykjavíkur í dag. Ljósmynd/Aðsend

Aðgerðarhópurinn sem maðurinn tengist hefur barist fyrir því að upplýsa um afdrif Hauks Hilmarssonar sem hefur verið saknað eftir loftárás Tyrkja á sjálfstjórnarsvæði Kúrda í Sýrlandi. Hópurinn sendi í morgun frá sér tilkynningu þar sem kom fram að hópurinn ætlaði að standa fyrir fánaskiptum sem kölluðust á við fánaaðgerð á vegum anarkista fyrir tíu árum, þegar Haukur Hilmarsson flaggaði byltingarfána Jörundar Hundadagakonungs á þaki Stjórnarráðsins.

Slökkviliðið að störfum.
Slökkviliðið að störfum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tilkynning hópsins „Hvar er Haukur“ í heild sinni:

Nú er liðið á fjórða mánuð frá því að fréttist að Hauks Hilmarssonar væri saknað eftir loftárás Tyrkja á sjálfstjórnarsvæði Kúrda í Sýrlandi. Haukur barðist við hlið Kúrda gegn Islamska ríkinu í Raqqa og síðar gegn innrás Tyrkja í Afrín. Lík Hauks hefur ekki fundist og í raun engin sönnun þess að hann sé látinn.

Óskum fjölskyldu Hauks um að Tyrkir verði krafðir svara um það hvað varð um lík þeirra sem féllu í Afrín hefur Utanríkisráðuneytið svarað á þann veg að það fylgi ráðleggingum tyrknesku lögreglunnar og vilji því ekki bera þessa spurningu undir stjórnvöld í Tyrklandi. Ennfremur telur ráðuneytið, þrátt fyrir að alþjóðlegi stríðsglæpadómstóllinn í París telji tyrknesk stjórnvöld sek um stríðsglæpi gegn Kúrdum, að þar sem Tyrkir segist sjálfir fara að alþjóðalögum á átakasvæðum sé ekki ástæða til að óttast að líkin liggi enn á víðavangi. Ráðuneytið hefur því ekki fengist til að spyrja tyrknesk stjórnvöld hvers vegna Rauða krossinum sé ekki leyft að leita að líkum á svæðinu. Forsætisráðuneytið hefur neitað að taka við málinu enda telur forsætisráðherra að Utanríkisráðuneytið vinni að því „af heilindum".

Lögreglan við Stjórnarráðið.
Lögreglan við Stjórnarráðið. mbl.is/Valli

Rannsókn lögreglunnar á afdrifum Hauks hófst með því að lögreglan bjó til málsnúmer, sagðist „leita" Hauks eins og sjómanns sem hefði fallið fyrir borð og beið þess síðan að líkið ræki að landi. Að sögn foreldra Hauks er nú tekinn við málinu lögreglumaður sem er hvorki heimalningur né hálfviti og hefur tekið skref í átt til alvöru rannsóknar. Þetta eru góðar fréttir og vonandi skilar sú rannsókn einhverjum svörum.

Viðleitni lögreglunnar breytir þó engu um framgöngu Utanríkisráðuneytisins og Forsætisráðuneytisins í þessu máli og þar sem sú undarlega staða er uppi að tyrkneska lögreglan stjórnar því hvernig íslensk ráðuneyti haga leit sinni að íslenskum ríkisborgara, er vel við hæfi á þjóðhátíðardegi Íslendinga að gera þessi óvæntu valdaskipti sýnileg. Af því tilefni stóð aðgerðahópurinn „Hvar er Haukur" fyrir fánaskiptum á þaki Stjórnarráðsins í dag.

Gjörningurinn kallast á við fánaaðgerð á vegum anarkista fyrir réttum 10 árum, en þá flaggaði Haukur Hilmarsson byltingarfána Jörundar Hundadagakonungs á þaki Stjórnarráðsins.

Sérsveitarmenn við Stjórnarráðið.
Sérsveitarmenn við Stjórnarráðið. mbl.is/Valli
mbl.is/Kristinn Magnússon
Stjórnarráðið með íslenska fánanum.
Stjórnarráðið með íslenska fánanum. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert