Sérsveit lögreglu var kölluð út að Engihjalla í Kópavogi á níunda tímanum í kvöld þar sem karlmaður í annarlegu ástandi otaði hnífi að íbúum blokkarinnar. Greint var frá aðgerðum lögreglu á Vísi.
Gunnar Hilmarsson, aðalvarðstjóri lögreglunnar í Kópavogi, segir í samtali við mbl.is að lögreglumönnum ásamt sérsveit lögreglu hafi tekist að leysa úr málum með farsælum hætti. Engan sakaði við aðgerðir sérsveitarinnar en Gunnar segir að íbúum blokkarinnar hafi verið brugðið.
Maðurinn var handtekinn og mun gista fangageymslur lögreglunnar á Hverfisgötu í nótt. Skýrsla verður tekin af honum á morgun sökum ástands.