„Það er bara þurrð á þessum markaði, þeir ryksuguðu þetta upp,“ segir María Björk Ingvadóttir, framkvæmdastjóri sjónvarpsmiðilsins N4.
María Björk og Sigmundur Ernir Rúnarsson, dagskrárstjóri Hringbrautar, gagnrýna Ríkisútvarpið harðlega og telja að ójöfn samkeppni á auglýsingamarkaði hafi átt sér stað í aðdraganda HM, þar sem auglýsingadeild RÚV hafi þurrkað upp auglýsingamarkaðinn, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.
„Við áttum ekki séns gegn þeim tilboðum sem RÚV lét rigna yfir markaðinn. Auglýsingadeild sjónvarpsins fer fram af miklu offorsi, með þeim afleiðingum að litlar sjónvarpsstöðvar sem hafa minna áhorf eiga enga möguleika,“ segir Sigmundur Ernir og bætir því við að ef slíkt hefði viðgengist í öðrum atvinnugreinum væri búið að grípa inn í af hálfu samkeppnisyfirvalda.