Björgunarsveitir frá Selfossi, Þorlákshöfn, Eyrabakka og Hveragerði voru kallaðar út á sjötta tímanum vegna örmagna konu sem er í sjálfheldu á Ingólfsfjalli.
Samkvæmt upplýsingum frá Landsbjörg átti konan í erfiðleikum með að lýsa staðsetningu sinni í fjallinu en björgunarsveitir og lögregla náðu að staðsetja konuna um klukkustund eftir að óskað var eftir aðstoð.
Konan er staðsett efst í stórgrýttu gili í fjallinu og treystir sér ekki til að hreyfa sig. Björgunarsveitarfólk er á leiðinni upp fjallið úr tveimur áttum með búnað til þess að koma konunni niður fjallið á öruggan hátt.
Uppfært klukkan 20:01
Björgunarsveitarmenn komu konunni til bjargar um klukkan 18:40 og gengu með hana niður af fjallinu. Konan, sem er erlendur ríkisborgari, var flutt á Selfoss til reglubundinnar skoðunar.