„Ég vona alltaf að þetta sé síðasta sumarið sem ég þarf að loka. Við lokum minna í ár en í fyrra, en þetta eru enn þá umtalsverðar lokanir. Ég vona núna að þetta sé síðasta árið sem ég þarf að standa í þessu. Þetta er ekki gott. Við vitum reyndar að aðflæðið er minna á sumrin, þannig að tölfræðin styður við að þetta sé skásti tíminn til að loka, en það er enginn tími góður til að loka geðdeildum.“
Þetta segir María Einisdóttir, framkvæmdastjóri geðsviðs Landspítalans, en loka þarf nokkrum deildum sviðsins í sumar vegna skorts á fjármagni og starfsfólki. „Ástæðan er sú að þetta sparar peninga, við þurfum að láta enda ná saman, og mönnunin er enn meiri ástæða. Við hreinlega höfum ekki hjúkrunarfræðinga til að manna deildina,“ útskýrir María.
Fíknideildin lokaði 15. júní og opnar ekki aftur fyrr en 7. ágúst, dagdeildin Hvítabandið og fimm daga endurhæfingardeild verða lokaðar í rúman mánuð og dagdeild átröskunarteymis í tæpa tvo mánuði. Heilt yfir standa lokanir í ár þó yfir í færri vikur en í fyrra, að sögn Maríu.
„Það er árvisst hjá okkur að loka þessum einingum. Við róterum móttökugeðdeildunum og í ár er það fíknigeðdeildin, móttökudeild fíknimeðferðar, sem við lokum. En svo því sé haldið til haga þá taka hinar deildirnar, sem eru opnar, við að þjónusta þennan sjúklingahóp.“
Anna Gunnhildur Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Geðhjálpar, sagði í fréttum RÚV í gærkvöldi að lokun fíknideildarinnar væri mjög alvarleg og gæti orðið til þess að vandi þeirra sem þangað hefðu leitað verði flóknari og erfiðari. Hún sagði fíknigeðdeild vera fyrir ungt og mjög veikt fólk, að mikið af fíkniefnum væri í umferð og að hætta væri á að fólk færi í geðrof, sem endi í örorku fyrir marga.
„Það er mesti vöxturinn í þessum hópi. Þetta er unga fólkið okkar og við eigum auðvitað að gera allt sem við getum til að koma í veg fyrir að það verði örorkuþegar framtíðarinnar.“
Anna sagðist finna fyrir áhyggjum af lokun deildanna, sérstaklega hjá aðstandendum. María hefur einnig fundið fyrir þessum áhyggjum, bæði hjá sjúklingum og aðstandendum. Hún segir að vissulega hafi lokanirnar áhrif á þann viðkvæma hóp sem þarf á þjónustu geðsviðsins að halda, enda komi þær alltaf eitthvað niður á þjónustunni.
„Við lokum fimmtán rúmum en við reynum að sinna þeim sem eru í bráðavanda. Þetta kemur niður á biðlistum og slíkri þjónustu. Við erum bara í bráðamálunum og leggjum okkur öll fram um að láta þetta ganga.“
María vonast til að mönnunin komi til með að lagast á næstu misserum en spítalinn er með átaksverkefni í gangi þar sem reynt er að laða hjúkrunarfræðinga til starfa.
„Vonandi tekst það hjá okkur. Við þurfum líka meira fjármagn. Þetta tvennt hangir svolítið saman; fjármögnunin og að laða að fólk. Við erum með fleiri hjúkrunarfræðinga í ár en við vorum með í fyrra og það er ákveðin vísbending um að við séum að snúa við þessu olíuskipi.“