Sérsveitin kölluð út í Stigahlíð

Frá aðgerðum sérsveitar og lögreglu í Stigahlíð.
Frá aðgerðum sérsveitar og lögreglu í Stigahlíð. Ljósmynd/Aðsend

Sérsveit lögreglunnar var kölluð út í Stigahlíð í Reykjavík í gærkvöldi. Þetta staðfestir lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, en að sögn sjónarvotta voru á staðnum þrír sérsveitarbílar með átta fullbúnum sérsveitarmönnum auk almennra lögreglubíla og lögreglumanna.

Íbúar í götunni sem höfðu samband við mbl.is vegna málsins, segja að sérsveitarmenn hafi farið inn í hús í götunni rétt fyrir klukkan 22 og að að minnsta kosti einn hafi verið handtekinn í hverfinu. Að sögn sjónarvotta hafði sá handtekni verið með stórt eggvopn innanklæða.

Sérsveitarmenn að störfum.
Sérsveitarmenn að störfum. Ljósmynd/Aðsend

Að sögn nágranna er í húsinu sem lögregla fór inn í starfrækt gistiheimili fyrir erlenda ríkisborgara sem óska eftir alþjóðlegri vernd á Íslandi.

Mbl.is greindi gærkvöldi frá aðgerðum sérsveitar í Engihjalla í Kópavogi þar sem maður ógnaði nágrönnum sínum með hníf. Þá hafði lögregla afskipti af mönnum sem lent höfðu í slagsmálum í miðborg Reykjavíkur í nótt. Einn mannanna reyndist hafa tvo ólöglega hnífa í fórum sínum og voru þeir haldlagðir af lögreglu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert