Glatt var yfir mönnum fyrir setningu fyrsta fundar borgarstjórnar Reykjavíkur. Gleðin tók þó brátt enda þegar minnihlutinn hóf að gera athugasemdir við meirihlutann þegar stóð til að kjósa forseta borgarstjórnar. Áberandi var að flokkar minnihlutans stóðu einhuga við kosningu í embætti borgarstjórnar.
Eyþór Laxdal Arnalds, oddviti og borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, tók til máls og sagði eftirtektarvert að fjórir flokkar af átta í borgarstjórn væru með einn fulltrúa og einnig gleðilegt og eftirtektarvert að svo margar konur hefðu nú náð kjöri en þær eru 15 af 23 fulltrúum. Hinsvegar væri ástæða til þess að gera athugasemd við að tala um meirihluta þar sem flokkar í minnihluta væru með 51% atkvæða á bak við sig.
Björn Gíslason, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, vildi einnig taka til máls en var snögglega stöðvaður af borgarstjóra sem sagði að samningur um meirihlutasamstarf væri ekki til umræðu, en að hann yrði ræddur á fyrsta fundi borgarstjórnar í september.
Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti og borgarfulltrúi Pírata, var síðan kosin forseti borgarstjórnar, sá yngsti frá upphafi. Hún varð 30 ára í dag, en Dóra Björt hlaut 12 atkvæði, en 11 skiluðu auðu.
Þá var Pawel Bartoszek, borgarfulltrúi Viðreisnar, kjörinn fyrsti varaforseti borgarstjórnar með 12 atkvæðum en Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, hlaut 11 atkvæði. Guðrún Ögmundsdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, hlaut 12 atkvæði í embætti annars varaforseta á meðan Sanna Magdalena Mörtudóttir hlaut 11 atkvæði.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, var endurkjörinn í embætti með 12 atkvæðum, 11 seðlar voru auðir.