Ný og afkastamikil vinnsluhola Norðurorku á Hjalteyri, sem boruð var í vor, lofar góðu. Í tilkynningu frá ÍSOR segir að nýja holan hafi verið prófuð með svokölluðu blástursprófi nú á föstudag og sýna niðurstöður prófsins að holan er í góðu sambandi við jarðhitakerfið á svæðinu.
Jarðhitasvæðið við Hjalteyri hefur verið mikilvægasta vinnslusvæði Norðurorku á þessari öld en svæðið var fyrst kortlagt um aldamót. Elsta borholan á svæðinu er frá árinu 2002 en í ársbyrjun 2005 var annarri bætt við.
Nýja holan er ólík hinum tveimur að því leyti að hún var borið með 12,25 tomma krónu, en hinar tvær eru boraðar með 8,5 tomma krónu. Nýja holan er því mun víðari og getur flutt meira vatn til yfirborðsins. Borverkið hófst 6. maí og lauk 14. júní á 1298 metra dýpi.
Hjalteyri er fyrir miðjum Eyjafirði í um tuttugu kílómetra fjarlægð frá Akureyri og stendur jarðhitasvæðið fyrir meira en helmingi af heitavatnsnotkun Akureyrar og nágrennis.