Sverrir Mar Albertsson, framkvæmdastjóri AFLs starfsgreinasambands, hefur ákveðið að bjóða sig fram til formennsku í Alþýðusambandinu á þingi sambandsins í október. Þetta staðfestir hann í samtali við mbl.is.
Sverrir segir að síðustu misseri hafi augljóslega orðið vík milli vina innan sambandsins og framámenn í verkalýðshreyfingunni skipst í tvær fylkingar. Nauðsynlegt sé að reyna að koma á friði. „Ég treysti mér mjög vel til að vinna með öllum hópum innan Alþýðusambandsins,“ segir Sverrir og bætir við að Gylfi Arnbjörnsson hafi gert vel að stíga til hliðar í dag og sýnt að enginn maður sé stærri en Alþýðusambandið.
Sverrir segir að þrátt fyrir gagnrýni hafi Gylfi haft nokkuð stöðugt fylgi innan sambandsins. „En það er ekkert í málflutningi þeirra sem hafa verið að gera sig gildandi í ASÍ síðustu mánuði sem ég kippi mér upp við.“
Spurður út í tímasetningu yfirlýsingarinnar segir hann að hann hefði ekki tilkynnt um framboð í dag ef ekki væri fyrir yfirlýsingu Gylfa. Hann útilokar þó ekki að hann hefði boðið sig fram.
Sverrir segist vilja stefna að því að aðildarfélög ASÍ axli meiri ábyrgð í kjarasamningsviðræðum, enda séu þær í höndum þeirra en ekki Alþýðusambandsins. Vill hann minnka vægi ASÍ þannig að sambandið sé meira hinn faglegi samráðsvettvangur sem annast mál sem tengjast öllum launamönnum.