Verkfall yfirvofandi hjá ljósmæðrum

Ljósmæður á stöðufundinum í morgun.
Ljósmæður á stöðufundinum í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Stefnt er að verkfallsaðgerðum ljósmæðra um miðjan næsta mánuð í formi yfirvinnubanns. Þetta staðfestir Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, formaður samninganefndar ljósmæðra, í samtali við mbl.is. „Svona aðgerð krefst ákveðins undirbúnings sem tekur um það bil hálfan mánuð. Við erum að keyra þetta í gang núna.“

Samninganefnd ljósmæðra átti stöðufund með samninganefnd ríkisins nú fyrir hádegi. Katrín Sif segir að lítið hafi komið fram á fundinum og að ekkert lausnamiðað samtal hafi átt sér stað. „Staðan var bara tekin eins og hún er.“

Stefnt er að því að halda samningafund á fimmtudaginn eftir viku. „Við erum í startholunum í kjaranefndinni og bíðum og óskum eindregið eftir lausnamiðuðu samtali til að klára þetta, binda hnút á þetta í eitt skipti fyrir öll. Þetta er hræðileg staða.“

Katrín Sif óttast að bráðum verði engar ljósmæður eftir til þess að berjast fyrir bættum kjörum og segir uppsögnum hafa rignt inn undanfarna daga. „Ég hef það ekki staðfest en ég heyrði á fundi í morgun að níu uppsagnir hefðu borist bara í gær.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert