Teknisk Ukeblad (TU) í Noregi greindi frá því 15. júní að nota ætti þyrlur sem enginn vildi fljúga með í Noregi til björgunarstarfa á Íslandi. Um er að ræða tvær Airbus H225 Super Puma-þyrlur sem verða afhentar Landhelgisgæslunni (LHG) í lok ársins eða byrjun næsta árs.
TU hefur fjallað talsvert mikið um H225 Super Puma eftir að ein slík hrapaði við Turøy í Noregi 29. apríl 2016. Með henni fórust 13 manns. Aðal spaðabúnaðurinn losnaði af þyrlunni á flugi og þeyttist áfram á meðan hinn hluti þyrlunnar féll til jarðar. Allar þyrlur af þessari gerð voru kyrrsettar eftir slysið.
Norski olíu- og gasiðnaðurinn undan ströndum (e. offshore) hætti að nota þessa tilteknu þyrlutegund. Svipaða sögu er að segja af breska olíuiðnaðinum undan ströndum og fleirum. Morgunblaðið hefur heimildir fyrir því að olíuboranafélag banni starfsmönnum sínum að fljúga með SuperPuma. Komi slík þyrla á borpall eða borskip til að sækja starfsmenn neita þeir að fara um borð og bíða á yfirvinnukaupi eftir þyrlu sem viðurkennd er af félaginu.
Flugmálayfirvöld í Noregi og Stóra-Bretlandi afléttu flugbanni á H225/AS332L2 Super Puma í júlí í fyrra. Bannið hafði þá staðið í 14 mánuði. Að sögn TU telur norski olíuiðnaðurinn ekki tímabært að taka þyrlurnar í notkun fyrr en norsk rannsóknarnefnd samgönguslysa (SHT) hefur lokið rannsókn á Turøy-slysinu og frumorsök þess er fundin.
Talið er að slysið við Turøy og fleiri slys Super Puma-þyrlna megi rekja til bilunar í gírkassa. TU nefnir í því sambandi slys sem varð úti fyrir ströndum Skotlands sjö árum fyrir Turøy-slysið og að tvær EC225-þyrlur hafi nauðlent á Norðursjó með bilaða gírkassa.
Morgunblaðið sendi LHG fyrirspurn vegna málsins og fékk svar frá Ásgeiri Erlendssyni upplýsingafulltrúa. Þar kemur m.a. fram að í kjölfar slyssins í Noregi hafi framleiðandi þyrlanna, Airbus, ráðist í umfangsmiklar endurbætur á þeim. Auk þess hafi viðhaldskröfur tengdar gírkassanum verið hertar verulega. Þyrlurnar uppfylli strangar kröfur sem gerðar eru af hálfu Flugöryggisstofnunar Evrópu (EASA) og Flugmálastjórnar Bandaríkjanna. Báðar þessar stofnanir hafi staðfest öryggi vélanna.
„Landhelgisgæsla Íslands hefur því enga ástæðu til annars en að trúa því að þessar vélar séu í hópi þeirra öruggustu í heiminum í dag. Það leikur enginn vafi á að Airbus H225 er ein fullkomnasta leitar- og björgunarþyrla sem völ er á í heiminum en alls eru 270 slíkar þyrlur í notkun í 30 löndum. Þegar vélarnar verða teknar í notkun hjá Landhelgisgæslunni verður stigið stórt og mikilvægt skref til framtíðar sem er bæði stofnuninni og þjóðinni allri til heilla,“ segir í svari LHG.
LHG hefur til umráða þrjár Super Puma-þyrlur af gerðinni AS332L1. LHG á TF-LIF og leigir TF-GNA og TF-SYN af Knut Axel Ugland Holding AS. Leiguþyrlurnar voru smíðaðar 1992 og 2002. Leigusalinn bauð LHG að skipta gömlu leiguþyrlunum út fyrir nýrri Airbus H225-þyrlur frá 2010. Skrifað var undir samning þess efnis í byrjun mánaðarins. Leiguverð og leigutími breytist ekki, þrátt fyrir nýrri þyrlur. „Með nýju þyrlunum nær Landhelgisgæslan að færa sig að mestu leyti til nútímarekstrar, bæði í viðhaldi og í flugi, sér í lagi hvað varðar nýjar reglur um hæfnibundna leiðsögu (Performance Based Navigation), blindflug og samhæfingu,“ segir í svari LHG.