Guðrún Jóna Guðlaugsdóttir og Ómar Ingi Bragason eru stödd í Volgograd en þau hafa fylgt landsliðinu eftir í fyrstu tveimur leikjunum og ætla sér nú til Rostov í síðasta leik landsliðsins í riðlakeppninni. Þau segja gaman í Rússlandi þrátt fyrir tap.
„Við sitjum ekki í Rostov!“ sagði Guðrún Jóna í samtali við Magasínið á K100 strax eftir tap leikinn gegn Nígeríu. Hún segir alla hafa setið á leiknum og að hún trúi því að nú þurfi áhorfendur að gefa meiri orku í leikinn og standa, „líkt og við gerðum í til dæmis í Nice er við kepptum á Evrópumótinu í Frakklandi fyrir tveimur árum“. Hún vonast til að allir Íslendingar standi og gefi allt í leikinn gegn Króötum.
Annars segir hún það hreint ótrúlegt að vera Íslending í Rússlandi í kringum ævintýri landsliðsins. Og þrátt fyrir tapið þá sé gaman að taka þátt. „Þetta er bara ólýsanlegt risapartý,“ segir Guðrún Jóna og hún segir alla vilja taka mynd af sér með íslensku víkingunum eða þá að fólk sé að vilja taka „Húið“ þegar það gengur framhjá. Hún segir þau hafa verið tekin í viðtöl hjá erlendum miðlum og öll athyglin sé jákvæð á svo margan hátt. Hvort sem það hafi verið viðbrögðin frá tollverðinum, nígerísku vinum þeirra sem þau kynntust á flugvellinum eða miðaldra rússneskum húsmæðrum. „Go Iceland“ og „Love your team“ séu ekkert óalgengir frasar á götum úti í Rússlandi.
Við leyfum nokkrum stemningsmyndum að fylgja með.