Flugvél, sem fljúga átti frá Akureyri til Keflavíkurflugvallar en brotlenti innarlega í Barkárdal 9. ágúst 2015, með þeim afleiðingum að einn lést og annar slasaðist alvarlega, var ofhlaðin. Þetta er niðurstaða rannsóknarnefndar samgönguslysa, sem gefið hefur út skýrslu um slysið.
Fram kemur meðal annars að afkastageta vélarinnar hafi verið talsvert skert sökum ofhleðslu, auk þess sem ekki hafi verið skilyrði til sjónflugs á flugleiðinni yfir Tröllaskaga, þeirri leið sem flugmennirnir hugðust taka.
Telur nefndin að mannlegir þættir hafi átt stóran þátt í flugslysinu en svokölluð blöndungsísing hafi einnig haft áhrif.
Málavextir eru raktir á þann veg að flugvélinni hafi verið flogið út Eyjafjörð frá Akureyri, yfir Þelamörk og inn Öxnadal.
„Lágskýjað var og ekki reyndist unnt af fljúga yfir Öxnadalsheiði. Var flugvélinni því snúið við innarlega í Öxnadal og flogið út í átt að Staðartunguhálsi þar sem stefnan var svo tekin í átt að botni Hörgárdals. Inni í Hörgárdal reyndist einnig ófært yfir Hörgárdalsheiði vegna lágra skýja. Var flugvélinni því aftur snúið við. Hugðust flugmennirnir þá fljúga í kringum Tröllaskagann samkvæmt varaplani sínu, en þegar þeir komu aftur að Staðartunguhálsi sýndist þeim þeir sjá gat í skýjunum innst inni í Barkárdal. Var því sú skyndiákvörðun tekin af báðum flugmönnunum að fljúga inn Barkárdal,“ segir í skýrslu nefndarinnar.
„Barkárdalur er langur og þröngur dalur með 3000-4500 feta háum fjöllum beggja vegna. Innst inni í Barkárdal er fjallaskarð sem liggur lægst í um 3900 feta hæð. Um þremur korterum eftir flugtak brotlenti flugvélin innarlega í Barkárdal í um 2260 feta hæð. Flugmaðurinn komst lífs af, en ferjuflugmaðurinn fórst í eldi sem kviknaði í flakinu eftir brotlendinguna.“
Arngrímur Jóhannsson, flugmaður og fyrrverandi forstjóri flugfélagsins Atlanta, komst lífs af úr slysinu og hefur síðar sagst muna vel eftir atburðarásinni.
„Við vissum að við vorum á leiðinni niður og það var erfið tilhugsun,“ segir Arngrímur í viðtalinu við Vikudag og bætir við: „Það er án efa versta upplifun sem ég hef gengið í gegnum að sitja við hliðina á látnum vini mínum lengst upp á fjöllum og geta ekkert gert.“