Dómarinn ætti að anda með nefinu

Jón Steinar Gunnlaugsson var gestur Páls Magnússonar á Þingvöllum í …
Jón Steinar Gunnlaugsson var gestur Páls Magnússonar á Þingvöllum í morgun. mbl.is/Hari

Jón Steinar Gunnlaugsson fyrrverandi hæstaréttardómari segir að Benedikt Bogason hæstaréttardómari beri sýnilega „mjög kaldan hug“ til sín og að hann telji að dómarinn ætti að „anda pínulítið með nefinu“ og átta sig á því að hann geri sjálfum sér ekki greiða með veikburða málarekstri gegn sér.

Þetta sagði Jón Steinar í viðtali við Pál Magnússon alþingismann í þættinum Þingvöllum á K100 í morgun, en Jón Steinar var á fimmtudag sýknaður í héraðsdómi í meiðyrðamáli sem Benedikt höfðaði gegn honum vegna ummæla um störf Hæstaréttar sem finna má í bók Jóns Steinars, Með lognið í fangið.

Jón Steinar sagði við Pál að málið snerist bara um heimildina til þess að til þess að mega gagnrýna dómstóla. Hann sagðist hálfpartinn hafa kennt í brjósti um lögmann Benedikts í málinu, þar sem ekki hafi staðið steinn yfir steini í málflutningi hans.

Benedikt sendi frá sér yfirlýsingu eftir að dómur var kveðinn upp á fimmtudag og sagðist ætla að áfrýja til Landsréttar. „Mér er til efs að hann hafi verið búinn að lesa hann, þegar hann gaf þessa yfirlýsingu,“ sagði Jón Steinar.

Jón Steinar sagði að eina aðhaldið sem íslenskur almenningur gæti veitt dómstólum væri það að gagnrýna niðurstöður þeirra málefnalega og það hafi hann reynt að gera með skrifum sínum. Hann spurði hvort verið væri að reyna að fæla menn frá slíkri gagnrýni með því að höfða mál gegn þeim sem gagnrýna.

„Traust á dómstólum verður að byggjast á þekkingu um góð verk þeirra, en ekki vanþekkingu um slæm verk þeirra,“ sagði Jón Steinar í viðtalinu, en þeir Páll fóru um víðan völl í spjalli sínu um íslenska dómskerfið og sagði Jón Steinar meðal annars að hann treysti Landsrétti betur en Hæstarétti, þar sem þar væru menn orðnir „skemmdir“ af því sem gerst hafi í fortíðinni.

Hér að neðan má sjá viðtalið við Jón Steinar í heild.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert