Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, mun ræða mál Hauks Hilmarssonar við Nihat Zeybecki, efnahagsmálaráðherra Tyrklands, á morgun, áður en ráðherrafundur fríverslunarsamtaka Evrópu hefst á Sauðárkróki.
Þetta staðfestir Guðlaugur í samtali við mbl.is.
Tveir fríverslunarsamningar verða undirritaðir í tengslum við ráðherrafundinn. Annars vegar verður skrifað undir nýjan fríverslunarsamning EFTA við Ekvador og hins vegar verður uppfærður fríverslunarsamningur við Tyrkland undirritaður.
Í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu segir að Pablo Campana Sáenz, utanríkisviðskiptaráðherra Ekvadors, skrifi undir fyrir hönd ríkisstjórnar Ekvador og Nihat Zeybekci, efnahagsmálaráðherra Tyrklands, af hálfu tyrkneskra stjórnvalda.
Fyrir hönd EFTA undirrita þau Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra, sem jafnframt stýrir fundinum, Aurelia Frick, utanríkisráðherra Liechtenstein, Torbjørn Røe Isaksen, iðnaðar- og viðskiptaráðherra Noregs og Johann N. Schneider-Amman, ráðherra efnahagsmála, menntunar og rannsókna í sambandsstjórn Sviss.