Sérsveit ríkislögreglustjóra var kölluð út til að aðstoða lögregluna á Suðurnesjum eftir að ráðist var á mann með hamri í Reykjanesbæ í gær. Átök tveggja manna í gleðskap enduðu með því að annar þeirra tók upp hamar og beitti honum í áflogum þeirra á milli.
Fór gerandinn af vettvangi í kjölfarið og aðstoðaði sérsveitin við handtöku hans, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurnesjum. Þolandinn var fluttur á sjúkrahús til aðhlynningar og var útskrifaður samdægurs. Áverkar reyndust ekki eins alvarlegir og talið var í upphafi.
Árásarmanninum hefur nú verið sleppt eftir yfirheyrslu og er málið í rannsókn lögreglu.
Lögreglan í Reykjanesbæ hefur ekki gefið upp ástæðu árásarinnar og gat ekki sagt hvort árásarmaðurinn hefði verið undir áhrifum vímuefna eða hvort hann hefði komið við sögu lögreglu áður.