Hjörtur Hjartarson íþróttafréttamaður er á leið heim frá Rússlandi að beiðni atvinnurekanda síns, Sýnar, vegna persónulegra mála. Þetta staðfestir Björn Víglundsson, framkvæmdastjóri miðla hjá Sýn, í samtali við mbl.is. Hjörtur mun að sögn viðstaddra hafa sýnt af sér óæskilega og ógnandi hegðun á laugardagskvöld sem og á blaðamannafundi í gær. Edda Sif Pálsdóttir, íþróttafréttakona á RÚV, kvartaði undan Hirti til öryggisnefndar KSÍ.
Víðir Reynisson, öryggisstjóri hjá KSÍ, staðfestir að Edda Sif hafi leitað til hans. Hann vildi ekki tjá sig nánar um atvikið eða alvarleika þess, en honum skyldist að það hefði ekki frekari eftirmála.
„Við lítum ekki á þetta sem okkar mál. Hans yfirmenn tóku á málinu og við höfum ekkert nánar um það að segja,“ segir Víðir, aðspurður hvort KSÍ muni aðhafast nánar í málum Hjartar eða hvort einhvers konar viðurlög bíði hans.
Björn hjá Sýn vildi ekki tjá sig um mál Hjartar að öðru leyti en að hann hefði verið kallaður heim og væri á leið frá Rússlandi. Tekið yrði á hans málum þegar heim yrði komið.
Að sögn blaðamanns mbl.is í Rússlandi mun Edda Sif hafa farið upp á hótel í miklu uppnámi ásamt samstarfskonu sinni eftir samskiptin við Hjört. Á blaðamannafundi daginn eftir virtist Hjörtur enn vera undir áhrifum áfengis. Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, staðfestir að framkoma Hjartar á fundinum hafi verið óásættanleg.
Ekki náðist í Hjört við vinnslu fréttarinnar, en í samtali við Fréttablaðið sagði hann að gömul veikindi hefðu tekið sig upp eftir fjögur ár. Hann fór í áfengismeðferð á Vogi árið 2014 eftir að hafa verið sendur í leyfi frá Stöð 2 eftir að hafa veist að samstarfsmanni. Árið 2012 var Hjörtur látinn fara frá RÚV í kjölfar þess að Edda Sif kærði hann fyrir líkamsárás. Kæran var látin niður falla eftir að þau náðu sáttum sín á milli.