Kostar á ný að nota salerni í Hörpu

Það kostar 250 krónur að fara á salerni á neðstu …
Það kostar 250 krónur að fara á salerni á neðstu hæð. mbl.is/Valli

Byrjað er að rukka fyrir aðgang að salerni í Hörpu. Um er að ræða tímabundna ráðstöfun yfir sumarið líkt og gert var í fyrra og mun hún gilda inn í ágústmánuð. Aðgangur að salerni á neðstu hæð í Hörpu kostar 250 krónur en salerni á öðrum hæðum eru alla jafna læst nema viðburður sé í gangi, segir Svanhildur Konráðsdóttir, forstjóri Hörpu í samtali við fréttastofu mbl.is.

„Harpa er einn fjölsóttasti ferðamannastaður í Reykjavík og sækir afar mikill fjöldi erlendra ferðamanna húsið heim – ekki síst yfir sumartímann. Til að tryggja góða ásýnd Hörpu og mæta kostnaði verður líkt og áður tekið hóflegt gjald eða 250 kr. fyrir afnot af snyrtingum á bílakjallarahæð. Allir gestir á viðburði og veitingastaði Hörpu nýta sér snyrtingar í Hörpu gjaldfrjálst,“ segir í fréttatilkynningu frá Hörpu sem var gefin út í dag.

Önnur salerni eru læst með aðgangsstýringu nema þegar viðburðir eru …
Önnur salerni eru læst með aðgangsstýringu nema þegar viðburðir eru í gangi. mbl.is/Valli

„Þetta er svipað og við gerðum síðasta sumar. Það er stór munur á dagskránni og viðburðahaldinu á veturna og yfir hásumarið. Hefðbundið viðburðahald minnkar mjög mikið á sumrin. Samhliða þessu erum við að stórfjölga skipulegum skoðunarferðum og viðburðum fyrir ferðamenn í húsinu,“ sagði Svanhildur í samtali við mbl.is fyrr í dag.

„Það sem skiptir mjög miklu máli og er grundvallaratriði er að allir gestir í Hörpu sem koma á viðburði eða eru gestir á veitingastöðum nýta þessa þjónustu og þessa aðstöðu gjaldfrjálst,“ bætir Svanhildur við.

Hún segir tilganginn tvíþættan. Annars vegar til að mæta kostnaði við að taka á móti miklum fjölda ferðamanna sem kemur á sumrin og hins vegar snúist þetta um ásýnd hússins, að halda því snyrtilegu og fallegu.

Verðið var 300 krónur yfir sumartímann í fyrra og hefur því verið lækkað um 50 krónur.

mbl.is/Valli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert