Nýr fríverslunarsamningur hefur verið undirritaður milli EFTA-ríkjanna og Ekvador á Hólum í Skagafirði í dag. Einnig var undirritaður uppfærður fríverslunarsamningur við Tyrkland. Þetta staðfestir Þorfinnur Ómarsson, samskiptastjóri EFTA, í samtali við mbl.is.
Ekki liggja fyrir nánari upplýsingar að svo stöddu, en búist er við frekari upplýsingum um samningana í dag.
Árlegur sumarfundur EFTA-ríkjanna stendur nú yfir á Sauðárkróki, en fundinn sækja ráðherrar, þingmenn og samstarfsaðilar aðildarríkja EFTA. Ísland fer með formennsku í EFTA og stýrir Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, fundinum.