Hæstiréttur staðfesti dóm gegn fréttamönnum 365

Fréttablaðið og 365 miðlar eru til húsa í Skaftahlíð.
Fréttablaðið og 365 miðlar eru til húsa í Skaftahlíð. mbl.is/Ómar Óskarsson

Hæstiréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í máli tveggja manna gegn 365 miðlum ehf. og fjórum fréttamönnum þeirra vegna umfjöllunar um Hlíðamálið svokallaða.

Í dómsorðum segir að hinn áfrýjaði dómur skuli vera óraskaður um ómerkingu ummæla og miskabætur, sem og um málskostnað. Héraðsdómur dæmdi nokkur ummæli og dauð og ómerk í umfjöllun fjölmiðilsins um málið. Meðal þeirra voru ummæli um að íbúðin í Hlíðunum hefði verið „útbúin til nauðgana“.

Málið varðar um­fjöll­un fréttamiðla 365 af ætluðum kyn­ferðis­brot­um mann­anna tveggja gegn tveim­ur kon­um sem áttu að hafa verið fram­in í októ­ber 2015. Mál mann­anna voru rann­sökuð en þau síðan felld niður.

Fréttamennirnir sem um ræðir eru þau Nadine Guðrún Yaghi, Heimir Már Pétursson, Stefán Rafn Sigurbjörnsson og Þórhildur Þorkelsdóttir. Öll voru þau dæmd í héraðsdómi til að greiða mönnunum bætur. Nadine Guðrúnu var gert að greiða hæstu bæturnar, hvorum manni 700.000 krónur.

Í dómsorðum segir enn fremur að greina þurfi frá forsendum dómsins og dómsorði innan sjö daga í fjölmiðlum Stöðvar 2, Bylgjunnar, Fréttablaðinu og vefmiðlinum Vísi að viðlögðum 50.000 króna dagsektum. Þá skulu áfrýjendur greiða stefndu hvorum um sig 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Hæstaréttar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert