Hæstiréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í máli tveggja manna gegn 365 miðlum ehf. og fjórum fréttamönnum þeirra vegna umfjöllunar um Hlíðamálið svokallaða.
Í dómsorðum segir að hinn áfrýjaði dómur skuli vera óraskaður um ómerkingu ummæla og miskabætur, sem og um málskostnað. Héraðsdómur dæmdi nokkur ummæli og dauð og ómerk í umfjöllun fjölmiðilsins um málið. Meðal þeirra voru ummæli um að íbúðin í Hlíðunum hefði verið „útbúin til nauðgana“.
Málið varðar umfjöllun fréttamiðla 365 af ætluðum kynferðisbrotum mannanna tveggja gegn tveimur konum sem áttu að hafa verið framin í október 2015. Mál mannanna voru rannsökuð en þau síðan felld niður.
Fréttamennirnir sem um ræðir eru þau Nadine Guðrún Yaghi, Heimir Már Pétursson, Stefán Rafn Sigurbjörnsson og Þórhildur Þorkelsdóttir. Öll voru þau dæmd í héraðsdómi til að greiða mönnunum bætur. Nadine Guðrúnu var gert að greiða hæstu bæturnar, hvorum manni 700.000 krónur.
Í dómsorðum segir enn fremur að greina þurfi frá forsendum dómsins og dómsorði innan sjö daga í fjölmiðlum Stöðvar 2, Bylgjunnar, Fréttablaðinu og vefmiðlinum Vísi að viðlögðum 50.000 króna dagsektum. Þá skulu áfrýjendur greiða stefndu hvorum um sig 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.