Eigandi Viking Tours dæmdur fyrir skattsvik

mbl.is/Hjörtur

Landsréttur dæmdi á föstudag Sigurmund Gísla Einarsson í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir skattalagabrot. Sigurmundi var jafnframt gert að greiða 33,5 milljóna króna sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna eða sæta fangelsi í tólf mánuði. Með dóminum sneri Landsréttur við dómi Héraðsdóms Suðurlands sem sýknaði Sigurmund af kröfum ákæruvaldsins.  

Sigurmundur var dæmdur fyrir að hafa ekki staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskatti og staðgreiðslu opinberra gjalda, samtals að fjárhæð 19.216.943 krónur.

Sigurmundur var framkvæmdastjóri, prókúruhafi og eini stjórnarmaður Viking Tours Vestmannaeyjum ehf. og eini stjórnarmaður og prókúruhafi Guðmundu ehf. Hann bar fyrir sig við skýrslutöku að hafa ekki haft umsýslu fjármála fyrirtækjanna en Landsréttur sagði að meira þyfti til að koma svo litið yrði fram hjá þeim skyldum sem að lögum hvíla á stjórnarmanni og framkvæmdastjóra einkahlutafélags.

Sigurmundi var sem fyrr segir gefið að sök brot á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt fyrir að hafa ekki staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskatti, sem innheimtur var í rekstri einkahlutafélagsins Viking Tours Vestmannaeyjum, og brot á lögum nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda fyrir að hafa ekki staðið ríkissjóði skil á staðgreiðslu opinberra gjalda, sem haldið var eftir af launum starfsmanna einkahlutafélaganna Viking Tours Vestmannaeyjum ehf. og Guðmundu ehf. 

Samkvæmt lögum um virðisaukaskatt skal fésektarrefsing vera allt að tífaldri þeirri fjárhæð sem undan var dregin skýri skattskyldur maður t.a.m. af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi rangt frá því er máli skiptir. Þá skal sektin aldrei vera lægri en tvöföld sú fjárhæð sem ekki var skilað eða greidd samkvæmt skilagrein.

Jafnframt var félaginu Guðmundu ehf., sem skráð var á Sigurmund, gert að greiða óskipt með Sigurmundi 10,6 milljóna sekt til ríkissjóðs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert