Staðfestir breytingu á aðalskipulagi Árneshrepps

Til stendur að virkja rennsli þriggja áa á Ófeigsfjarðarheiði.
Til stendur að virkja rennsli þriggja áa á Ófeigsfjarðarheiði. mbl.is/RAX

 Skipu­lags­stofn­un hef­ur staðfest breyt­ingu á aðal­skipu­lagi Árnes­hrepps 2005-2025 er varða und­ir­bún­ings­fram­kvæmd­ir fyr­ir­hugaðrar Hvalár­virkj­un­ar og samþykkt var í sveit­ar­stjórn 30. janú­ar. Þetta kem­ur fram í frétt á vef stofn­un­ar­inn­ar. 

Í aðal­skipu­lags­breyt­ing­unni eru sett ákvæði um að halda vega­fram­kvæmd­um um fyr­ir­hugað virkj­ana­svæði, sem er á óbyggðu víðerni, í al­gjöru lág­marki og að vega­gerð verði sleppt þar sem það er mögu­legt. Sett eru ákvæði um að vinnu­veg­ir skerði ekki vist­gerðir eða jarðminj­ar sem njóta vernd­ar sam­kvæmt lög­um um nátt­úru­vernd, eða vist­gerðir með hátt eða mjög hátt vernd­ar­gildi. Lagn­ing vinnu­vega á svæðum þar sem ekki hafa verið skráðar eða mæld­ar forn­minj­ar verði und­ir eft­ir­liti forn­leifa­fræðings. 

mbl.is/​Krist­inn Garðars­son

Skipu­lags­stofn­un sendi sveit­ar­stjórn Árnes­hrepps er­indi í lok apríl 

Hrepps­nefnd Árnes­hrepps brást við þessu er­indi Skipu­lags­stofn­un­ar í byrj­un júníÍ bréfi nefnd­ar­inn­ar var það gagn­rýnt að Skipu­lags­stofn­un tæki upp „ávirðing­ar“ frá Land­vernd og nátt­úru­vernd­ar­sam­tök­un­um Rjúk­anda um til­boð fram­kvæmdaaðilans um sam­fé­lags­verk­efni í sveit­ar­fé­lag­inu.

Einnig var sagt ljóst að ákv­arðana­taka og ábyrgð á breyt­ing­um aðal­skipu­lags væri hjá hrepps­nefnd­inni en ekki hjá fram­kvæmdaaðilan­um Vest­ur­verki, auk þess sem þeim at­huga­semd­um sem sett­ar hafa verið fram um hæfi hrepps­nefnd­ar­full­trúa var vísað á bug. Þá var lögð áhersla á að Skipu­lags­stofn­un staðfesti aðal­skipu­lags­breyt­ing­ar sveit­ar­fé­lags­ins.

Óveru­leg­ir ann­mark­ar

Í af­greiðslu­bréfi Skipu­lags­stofn­unar, sem birt er á vef henn­ar í dag, seg­ir að stofn­un­in telji að í svari Árnes­hrepps hafi í meg­in­at­riðum verið upp­lýst um þau atriði sem spurt var um. Að mati stofn­un­ar­inn­ar séu ann­mark­ar á málsmeðferð skipu­lagstil­lög­unn­ar það óveru­leg­ir að þeir hindri ekki staðfest­ingu aðal­skipu­lags­breyt­ing­ar­inn­ar. 

Aðal­skipu­lags­breyt­ing vegna fyr­ir­hugaðrar Hvalár­virkj­un­ar var samþykkt í sveit­ar­stjórn Árnes­hrepps 30. janú­arGert hef­ur verið ráð fyr­ir virkj­un í aðal­skipu­lagi hrepps­ins í nokk­ur ár en með breyt­ing­un­um var iðnaðarsvæði fært til, heim­ild fyr­ir starfs­manna­búðum bætt við, íbúðarsvæði inn­an virkj­un­ar­svæðis fellt út og veg­ir um virkj­un­ar­svæðið skil­greind­ir sem og efn­is­töku­svæði.

Viðfangs­efni aðal­skipu­lags­breyt­ing­ar­inn­ar er út­færsla und­ir­bún­ings­fram­kvæmda vegna fyr­ir­hugaðrar Hvalár­virkj­un­ar. Breyt­ing­in miðar að því að unnt sé að fram­kvæma nauðsyn­leg­ar rann­sókn­ir vegna hönn­un­ar virkj­un­ar­inn­ar, þ.e. könn­un á laus­um jarðlög­um, bergi og und­ir­stöðum fyr­ir stífl­ur, dýpt­ar­mæl­ing­ar á vötn­um og ýms­ar um­hverf­is­rann­sókn­ir, svo sem forn­leif­a­skrán­ing. Breyt­ing­in fel­ur í sér eft­ir­far­andi:

  • Iðnaðarsvæði sem sam­kvæmt gild­andi aðal­skipu­lagi er ætlað fyr­ir stöðvar­hús og    aðstöðuhús virkj­un­ar fær­ist sunn­ar og og þar er gert ráð fyr­ir tíma­bundn­um starfs­manna­búðum fyr­ir allt að 30 manns.
  • Íbúðarsvæði við Hvalá er fellt niður.
  • Bætt er við þrem­ur efnis­töku­svæðum; við Hvalárósa, í Hvalá og við Hvalár­vatn. Sam­tals er heim­ilt að taka 88.000 m3 af efni á svæðunum. 
  • Útfærðir eru vinnu­veg­ir frá Ófeigs­fjarðar­vegi sunn­an Hvalár að Neðra Hvalár­vatni og þaðan að Neðra Ey­vind­ar­fjarðar­vatni ann­ars veg­ar og að Rjúk­anda hins veg­ar, sam­tals 25 km. Um 600 m ofan við Hvalár­foss er gert ráð fyr­ir brú yfir Hvalá.

Veg­ir skulu fjar­lægðir ef ekki verður af virkj­un

Í af­greiðslu Skipu­lags­stof­un­ar seg­ir að ef fallið verði frá virkj­ana­áform­um skulu veg­ir og brú fjar­lægð og um­merki fjar­lægð eins og kost­ur er. Einnig eru sett ákvæði um vinnu­lag við efnis­töku og frá­gang efnis­töku­svæða og að efnis­töku­svæði við Hvalá verði aðeins nýtt ef ekki fæst nægi­legt efni úr efnis­töku­svæði við Hvalárósa. Að fram­kvæmd­um lokn­um skulu starfs­manna­búðir fjar­lægðar og gengið frá svæði þannig að það verði sem lík­ast því sem var fyr­ir fram­kvæmd­ir. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert